Viðskipti innlent

Vilja stíga stærri skref

Við Ingólfstorg í Reykjavík.
Við Ingólfstorg í Reykjavík. Fréttablaðið/Anton
Eigin tillögur bankanna um framtíð Íbúðalánasjóðs verða á næstu dögum kynntar stýrihópi sem félagsmálaráðherra skipaði til að koma fram með tillögur um framtíð sjóðsins.

Mikið ber í milli hjá stýrihópnum og bönkunum. Bankarnir höfnuðu fyrstu hugmyndum stýrihópsins um að koma á sérstökum Íbúðabanka sem væri deild innan Íbúðalánasjóðs. Telja bankarnir þar einungis haldið áfram ríkisábyrgð sem trufli aðra fjármögnun á markaði. Aukinheldur eru tillögurnar sagðar hafa gert ráð fyrir að bankarnir yrðu dreifileið fyrir Íbúðalánasjóð þannig að aflögð yrði samkeppni og allir dreifðu lánum á sömu vöxtum.

Samkvæmt heimildum Markaðarins tók nokkurn tíma fyrir bankastofnanir hér að ná samstöðu um eigin tillögur þar sem áherslur þeirra og aðstæður eru mismunandi. Til dæmis er sagður mikill munur á stóru viðskiptabönkunum og svo sparisjóðum sem ekki fjármagna sig með sama hætti.

Tillögur bankanna eru nú í kynningu hjá stjórnendum sem málið varðar þar innandyra og voru sendar út fyrir helgi. Samkvæmt heimildum Markaðarins eiga svo Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, og Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis banka, bókaðan fund með Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra eftir næstu helgi þar sem til stendur að ræða málið og önnur mál tengd starfsumhverfi bankanna í víðu samhengi. Bjarni og Halldór eru formaður og varaformaður Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) en þau hafa lagt mikla áherslu á að Íbúðalánasjóður hverfi af samkeppnismarkaði.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SBV, segir málið enn á umræðustigi og ekki í neinum hnút. Hann segir að leggja þurfi áherslu á að vinna málið vel því hver sem niðurstaðan verði sé ljóst að hún kalli strax á viðbrögð matsfyrirtækja og alþjóðastofnana sem fjallað hafi um lánshæfi bankanna og efnahagsmál hér. Ljóst er að framtíð sjóðsins skiptir þarna nokkuð miklu máli, enda segir í nýlegu áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) að hann hafi verið ein helsta hindrunin í vegi þess að peningamálastefna Seðlabankans hafi náð hér fram að ganga með eðlilegum hætti.

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans og varaformaður SBV, segir samtökin lengi hafa haft ákveðnar hugmyndir um þær breytingar sem verða myndu til að ríkið hyrfi af íbúðalánamarkaði. "Grunnpunktarnir af okkar hálfu hafa verið að umfang ríkisins væri hér eftir líka grundvallað af markaðslögmálum og ekki yrði ríkisstyrkt samkeppni á þessum markaði." Hann segir ljóst að mikið beri enn í milli og telur að endurmeta þurfi stöðuna í ljósi umræðu sem átt hefur sér stað um bankana og efnahagslíf hér á alþjóðavettvangi.

"Íbúðalán eru í hverju landi einn stærsti þátturinn í fjármálamarkaðnum, hafa áhrif á þróun skuldabréfamarkaðar og almennt á þróunina með mjög víðtækum hætti. Því er mjög mikilvægt að vel takist til um slíkar breytingar og að alþjóðafjármálamarkaðurinn sjái þær sem jákvæðar breytingar á fjármálamarkaði hér. Því kann að vera að menn þurfi að horfa á þetta upp á nýtt og stíga skref sem eru stærri í átt að því að markaðsvæða þetta kerfi en þeir höfðu áður hugsað sér. Að þessu held ég að allir hafi hag að því að vinn aað með opnum huga í stað þess að festast í umræðum fortíðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×