Viðskipti innlent

Glitnir var til ráðgjafar í Ameríku

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Helgi Anton Eiríksson  viðskiptastjóri á alþjóða- og fjárfestingasviði Glitnis.
Helgi Anton Eiríksson viðskiptastjóri á alþjóða- og fjárfestingasviði Glitnis.
Glitnir banki var ráðgjafi bandaríska fisksölufyrirtækisins F.W. Bryce Inc. í söluferli fyrirtækisins, en það var í vikunni selt Nissui USA, dótturfyrirtæki Nippon Suisan Kaisha Ltd. í Japan.

Helgi Anton Eiríksson, viðskiptastjóri á alþjóða- og fjárfestingasviði bankans, segir söluferlið hafa verið nokkuð umfangsmikið þar sem velja hafi þurft á milli margra kaupenda, en salan tók um hálft ár.

Nokkur tímamót þykja að íslenskur banki veiti sérfræðiráðgjöf í fyrirtækjaviðskiptum milli fyrirtækja í Bandaríkjunum.

„Þetta eru nokkur tímamót fyrir okkur, enda gengur sjávarútvegsstefna okkar út á að menn leiti til okkar þegar svona umbreytingareru í gangi,“ segir Helgi, en ráðgjöf af þessu tagi er bankanum nokkur tekjulind, enda er hann bara til ráðgjafar, en fjármagnar ekki kaupin eða kemur að þeim að öðru leyti.

Helgi segir vöxt í þessari starfsemi Glitnis. Við erum með nokkur svona verkefni á prjónunum og teljum mikil tækifæri vera á þessum vettvangi.

Bryce er staðsett í Goucester í Bandaríkjunum og markaðssetur frystar sjávarafurðir á Bandaríkjamarkaði, auk markaðssetningar, í minna mæli þó, í Japan og Kanada. Nissui á hins vegar fjölda fyrirtækja í Bandaríkjunum sem framleiða úr sjávarafurðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×