Lítið skref vekur upp spurningu 1. mars 2006 00:31 Þrátt fyrir opnun hagkerfisins eru erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi enn nokkrum takmörkunum háðar. Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, hefur nú kynnt áform um að taka lítið skref til opnunar fyrir erlenda fjárfestingu á þessu sviði með því að heimila útlendingum að eiga og reka fiskmarkaði hér á landi. Í sjálfu sér er hér ekki um mikla breytingu að ræða og ólíklegt að hún hafi teljandi áhrif. Ráðherrann stígur því afar varlega til jarðar í þessum efnum. Hvað sem því mati líður er hér um skynsamlega ráðstöfun að ræða. Það voru fyrst og fremst varfærnissjónarmið, sem réðu því á sínum tíma, að þessi afmarkaði þáttur var skilinn frá almennum breytingum, er urðu við inngönguna í evrópska efnahagssvæðið. Sú smávægilega breyting, sem nú er boðuð að því er varðar fiskmarkaðina, vekur hins vegar upp þá spurningu hvers vegna ekki er gengið lengra. Augu manna beinast þá að útgerðinni. Þar gilda enn verulegar takmarkanir á erlendri fjárfestingu. Hún lýtur þannig hámarks takmörkun og getur aðeins átt sér stað með óbeinum hætti í gegnum önnur íslensk fyrirtæki. Hvers vegna eiga önnur sjónarmið að ráða varðandi erlenda fjárfestingu í útgerð en á öðrum sviðum atvinnulífsins? Það er að sjálfsögðu ekki náttúrulögmál, og þau rök, sem að baki liggja, þurfa stöðugt að vera til endurskoðunar í ljósi breyttra tíma og nýrra aðstæðna. En á sinni tíð voru höfuðrökin skýr og einföld. Veiðirétturinn er markaðsvara, sem felur í sér takmörkuð eignaréttindi. Rétt þótti að girða fyrir það, að útlendingar kæmust eftir þeim leiðum eins og inn um bakdyrnar í landhelgina. Eitt af mörgum álitaefnum í þessu máli er, hvort þessi rök eru enn góð og gild. Segja má, að minnkandi vægi sjávarútvegsins í þjóðarbúskapnum hafi dregið úr þeirri almennu áhættu, sem erlendar fjárfestingar í útgerðarrekstri gætu haft í för með sér. Að því leyti er þessi röksemd meira matsatriði nú en fyrir áratug, en hún er eigi að síður ekki orðin gildislaus. En hér hljóta fleiri röksemdir að koma til skoðunar. Sjávarútvegur samkeppnislandanna nýtur verulegra styrkja bæði að því er varðar veiðar og vinnslu. Þetta á ekki síst við innan Evrópusambandsins, og þar eru mikilvægustu keppinautarnir. Að þessu leyti er samkeppnisstaðan afar ójöfn. Í því ljósi eru skýr rök fyrir því að viðhalda að svo stöddu þeim takmörkunum, sem hér hafa gilt. Erlendar fjárfestingar innan Evrópusambandsins leiddu til þess, að aðildarríkjunum var heimilað að setja ýmiss konar átthagatakmarkanir á útgerðina. Það á til að mynda við um hvar aflanum má landa, hvaðan aðföng eru keypt og hvaðan ráða má áhafnir. Í markaðsreknum sjávarútvegi eins og við búum við hefur engum dottið í hug að hneppa útgerðarreksturinn í fjötra af þessu tagi. Óhagræði af slíkum takmörkunum gæti vegið upp hagræðið af því að opna þessa fjárfestingarmöguleika. Þessi atriði þarf því að hafa í huga þegar staðan er metin. Fram til þessa hafa möguleikar til óbeinna fjárfestinga verið notaðir í óverulegum mæli. Það bendir ekki til þess að verulegur þrýstingur hafi verið á breytingar. Að öllu athuguðu sýnast því ekki vera gildar ástæður til þess að gera hér á breytingar eins og sakir standa. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Þorsteinn Pálsson Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Þrátt fyrir opnun hagkerfisins eru erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi enn nokkrum takmörkunum háðar. Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, hefur nú kynnt áform um að taka lítið skref til opnunar fyrir erlenda fjárfestingu á þessu sviði með því að heimila útlendingum að eiga og reka fiskmarkaði hér á landi. Í sjálfu sér er hér ekki um mikla breytingu að ræða og ólíklegt að hún hafi teljandi áhrif. Ráðherrann stígur því afar varlega til jarðar í þessum efnum. Hvað sem því mati líður er hér um skynsamlega ráðstöfun að ræða. Það voru fyrst og fremst varfærnissjónarmið, sem réðu því á sínum tíma, að þessi afmarkaði þáttur var skilinn frá almennum breytingum, er urðu við inngönguna í evrópska efnahagssvæðið. Sú smávægilega breyting, sem nú er boðuð að því er varðar fiskmarkaðina, vekur hins vegar upp þá spurningu hvers vegna ekki er gengið lengra. Augu manna beinast þá að útgerðinni. Þar gilda enn verulegar takmarkanir á erlendri fjárfestingu. Hún lýtur þannig hámarks takmörkun og getur aðeins átt sér stað með óbeinum hætti í gegnum önnur íslensk fyrirtæki. Hvers vegna eiga önnur sjónarmið að ráða varðandi erlenda fjárfestingu í útgerð en á öðrum sviðum atvinnulífsins? Það er að sjálfsögðu ekki náttúrulögmál, og þau rök, sem að baki liggja, þurfa stöðugt að vera til endurskoðunar í ljósi breyttra tíma og nýrra aðstæðna. En á sinni tíð voru höfuðrökin skýr og einföld. Veiðirétturinn er markaðsvara, sem felur í sér takmörkuð eignaréttindi. Rétt þótti að girða fyrir það, að útlendingar kæmust eftir þeim leiðum eins og inn um bakdyrnar í landhelgina. Eitt af mörgum álitaefnum í þessu máli er, hvort þessi rök eru enn góð og gild. Segja má, að minnkandi vægi sjávarútvegsins í þjóðarbúskapnum hafi dregið úr þeirri almennu áhættu, sem erlendar fjárfestingar í útgerðarrekstri gætu haft í för með sér. Að því leyti er þessi röksemd meira matsatriði nú en fyrir áratug, en hún er eigi að síður ekki orðin gildislaus. En hér hljóta fleiri röksemdir að koma til skoðunar. Sjávarútvegur samkeppnislandanna nýtur verulegra styrkja bæði að því er varðar veiðar og vinnslu. Þetta á ekki síst við innan Evrópusambandsins, og þar eru mikilvægustu keppinautarnir. Að þessu leyti er samkeppnisstaðan afar ójöfn. Í því ljósi eru skýr rök fyrir því að viðhalda að svo stöddu þeim takmörkunum, sem hér hafa gilt. Erlendar fjárfestingar innan Evrópusambandsins leiddu til þess, að aðildarríkjunum var heimilað að setja ýmiss konar átthagatakmarkanir á útgerðina. Það á til að mynda við um hvar aflanum má landa, hvaðan aðföng eru keypt og hvaðan ráða má áhafnir. Í markaðsreknum sjávarútvegi eins og við búum við hefur engum dottið í hug að hneppa útgerðarreksturinn í fjötra af þessu tagi. Óhagræði af slíkum takmörkunum gæti vegið upp hagræðið af því að opna þessa fjárfestingarmöguleika. Þessi atriði þarf því að hafa í huga þegar staðan er metin. Fram til þessa hafa möguleikar til óbeinna fjárfestinga verið notaðir í óverulegum mæli. Það bendir ekki til þess að verulegur þrýstingur hafi verið á breytingar. Að öllu athuguðu sýnast því ekki vera gildar ástæður til þess að gera hér á breytingar eins og sakir standa.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun