Eitt stærsta mál dómsins

"Það má leiða líkum að því að þetta verði eitt stærsta málið sem farið hefur hér fram," segir Helgi I. Jónsson, dómsstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur. Eftir hádegi í dag verður þingfest mál ákæruvaldsins á hendur helstu forsvígsmönnum Baugs en alls eru sex manns ákærðir í málinu. Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Jónsson, Kristín Jóhannesdóttir, Tryggvi Jónsson, Stefán Hilmar Stefánsson og Anna Þórðardóttir. Dómari í málinu verður Pétur Guðgeirsson en honum til aðstoðar verða tveir meðdómarar en ákvörðun um hvenær málsmeðferðin mun hefjast verður tekin að þingfestingu lokinni. Búast má við að fjölmenni verði í dómsal númer eitt enda er sá ekki ýkja stór. Helgi segir engar sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar en hann á þó von á að pláss verði fyrir alla. Um er að ræða sakborningana sex, verjendur þeirra, teymi saksóknara, dómsvörð auk fjölda fjölmiðlafólks.