Viðskipti erlent

Sterling skili hagnaði á þessu ári

Flugfloti skandinavíska lágfargjaldaflugfélagsins Sterling, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, verður tvöfaldaður á næstunni og segir forstjóri félagsins, Almar Örn Hilmarsson að áætlað sé að félagið skili hagnaði á þessu ári. Tap félagsins á fyrsta ársfjórðungi var um 460 milljónir króna og tap félagsins í fyrra nam um 1,5 milljarði króna. Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um hvernig stjórnendur félagsins ætli sér að snúa taprekstri svo skjótt við. Almar Örn, sem jafnframt er forstjóri Iceland Express, segir þó að tækifærin séu til staðar, félagið hafi ekki verið keypt á fimmta milljarða króna til að gera ekki neitt. Þá segir Almar að vissulega sé á dagskránni að kaupa fleiri flugfélög því fyrirtækið sé stórhuga og ætli sér góða markaðshlutdeild í Skandinavíu. Eins og fram hefur komið í fréttum, hefur Sterling gert tilboð í litháenska flugfélagið Lithuanian Airlines en Almar vill þó ekki gefa upp upphæðina sem boðið var í félagið en segist þó bjartsýnn um að tilboðinu verði tekið. Svar frá stjórnendum Lithuanian Airlines má vænta í byrjun næsta mánaðar. Þá stendur til að fjölga ferðum félagsins og er ætlunin meðal annars að fljúga til Bandaríkjanna, til dæmis Suðurríkjanna, og á ákvörðun um það að liggja fyrir innan hálfs mánaðar. Þá eru uppi áætlanir um Taílandsflug. Alls flýgur félagið í dag til 30 staða í heiminum, aðallega til Suður-Evrópu, Skandinavíu, Bretlands og Írlands.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×