Skoðun

Fréttastofa í gíslingu?

Snorri Þórisson skrifar

Nú þegar mesta fjaðrafokið er búið vegna ráðningar fréttastjóra Ríkisútvarps get ég ekki lengur orða bundist. Það er búið að vera með ólíkindum að fylgjast með fréttatímum ríkisfjölmiðlana. Fréttamenn hafa haldið fréttatímum stofnunarinnar í gíslingu og talað hver við annan um ágæti hvers annars og um leið verið með ærumeiðingar og níð í garð umsækjandans sem útvarpsstjóri og útvarpsráð völdu til að blása nýju lífi í fréttastofuna. Því miður hefur umsækjandinn, Auðun Georg nú ákveðið að taka ekki stöðu fréttastjóra þar sem grátkór fréttamanna hefur gert honum það ókleift. Spurningin er, hver á að fara með mannaforráð í Ríkisútvarpinu, þar með talinni fréttadeild stofnunarinnar? Eru það fréttamenn eða útvarpsstjóri? Samkvæmt stjórnskipan er það útvarpsstjóri. Nú er bara spurningin hver eftirleikurinn verður. Mun útvarpsstjóri taka á sig rögg og reka grátkórinn sem hefur gerst brotlegur í opinberu starfi eða mun kórinn áfram halda fréttastofunni í gíslingu? Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur fram til þessa verið talin óvilhallur og traustur fréttamiðill en hefur nú sett niður vegna þessa máls. Með hlutdrægum fréttaflutningi hefur trúverðugleiki fréttastofunnar glatast. Þjóðin á heimtingu á að ráðinn verði nýr fréttastjóri sem kemur ekki úr röðum þeirra sem blönduðust inn í málið með einu eða öðrum hætti. Höfundur er kvikmyndaframleiðandi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×