Óvíst hvort Birkir fari út

Birkir Ívar Guðmundsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, segir að það skýrist um eða eftir næstu helgi hvort hann gangi til liðs við þýska handboltaliðið Hamborg. Birkir, sem æfði tvisvar með félaginu í síðustu viku, fékk tilboð frá þýska liðinu en umboðsmaður hans er búinn að gera gagntilboð og hittir forystumenn Hamborgarliðsins síðar í vikunni. Birkir, sem leikur með Haukum, segist flýta sér hægt; hann sé í góðri vinnu og að sér líði vel hjá Haukum.