Viðskipti innlent

Baugur hefur ekki tekið afstöðu

Baugur hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort haldið verði fast við það að breska fyrirtækið Iceland fái einkarétt á Iceland sem vörumerki í allri Evrópu. Iceland er gríðarlega umfangsmikil verslunarkeðja með fleiri hundruð vöruflokka. Fyrirtækið hefur nú sótt um einkarétt á Iceland sem vörumerki í öllum löndum Evrópusambandsins sem getur komið sér illa fyrir íslensk fyrirtæki. Iceland er til dæmis með mikið af matvöru og ef það fær sitt fram útilokar það íslensk fyrirtæki frá því að nota hina hreinu náttúru Íslands til þess að auglýsa hvort sem er fisk, kjöt eða vatn. Iceland vill einnig fá einkarétt á nafninu í netsölu sem víkkar enn þau áhrif sem þetta gæti haft, til dæmis varðandi bókanir á Netinu hjá Icelandair og Iceland Ecpress. Íslendingar hafa þegar mótmælt því að fyrirtækið fái þennan einkarétt. Baugur og fleiri fjárfestar hafa nú keypt Iceland og taka við stjórnartaumunum hinn ellefta þessa mánaðar. Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, sagði í samtali við fréttastofuna að allt sem nú væri í gangi hjá Iceland væri verk þeirra sem nú sætu í stjórn fyrirtækisins og Baugur hefði ekkert um það að segja. Þetta væri mál sem þeir ættu eftir að skoða þegar þeir tækju við stjórntaumunum og því ótímabært að tjá sig um hvað verði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×