Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður vill fleiri lóðir

Með því að auka lóðaframboð geta sveitarfélögin, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, minnkað þrýstinginn sem verið hefur á fasteignaverð. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. "Í áformum Íbúðalánasjóðs um hófsama hækkun hámarkslána og 90 prósenta veðsetningarhlutfall var tillit tekið til fasteignamarkaðarins og stöðu íslensks efnahagslífs," segir í skýrslunni. "Innkoma banka og sparisjóða á fasteignalánamarkað hefur hins vegar leitt til hækkunar á fasteignaverði og aukið þrýsting á verðbólgu." Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbanka Íslands, segir alveg rétt að innkoma banka á fasteignalánamarkað hafi haft áhrif á fasteignaverð. Hins vegar megi ekki gleyma því að Íbúðalánasjóður hafi sjálfur átt upptökin þegar hann tilkynnti að boðið yrði upp á 90 prósenta lán. Edda Rós segist taka undir með Íbúðalánasjóði hvað aukna lóðaúthlutun snertir. "Það er mikilvægt að einblína ekki bara á aukna eftirspurn eftir húsnæði heldur líka framboðið. Það er mikilvægt að greiða fyrir aukinni uppbyggingu. Það myndi án efa hafa áhrif á fasteignaverðið."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×