Skoðun

Hver sér um börnin?

Flestir foreldrar eru útivinnandi og börn eru í dagvist meira og minna frá 6 mánaða aldri í 9 klukkustundir á dag. Þetta er mörgum áhyggjuefni. Ekki er hægt að efast um að samvist barna við foreldra sína er allt annars eðlis heldur en við kennara eða aðra gæsluaðila og spurning er hvort þeir örfáu klukkutímar sem foreldrar og börn fái saman sé nægilegur tími. Erfitt er að svara þeirri spurningu þar sem að vissu leyti er þetta staða sem er nýtilkomin, því ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að sjá allt aðra hætti. Þá voru börn meðal annars mikið til hálfan daginn á leikskóla og mæður þá heimavinnandi eða í vinnu hálfan daginn. Vissulega var það jafnréttisbaráttan sem breytti mörgu en stigið er á hálan ís ef fara á að kenna henni alfarið um. Jafnvel má líta á hana sem framfaraskref þar sem feðrum er gefið tækifæri til að vera aðilinn sem sér um heimili og börn án þess að það þyki á nokkurn hátt óeðlilegt. Ríkjandi viðhorf um lífsstíl leggja þær kröfur á hina fullorðnu að sinna líkamsrækt, eiga fallegt heimili, vera smart, eiga góða vini, njóta skemmtunar og stefna að starfsframa. Ekki er víst að jafnréttisbaráttan hafi hrint af stað þessum kröfum, því einnig má merkja gífurlega áherslu á frelsi einstaklingins á síðustu árum. Hinsvegar er það spurning hvort samfélagslega sé hægt að líta á barnafjölskyldu sem hóp einstaklinga því athafnir eins aðila í fjölskyldunni hafa alltaf áhrif á hina. Og ef til vill er kominn tími til að leggja áherslu á frelsi fjölskyldunnar? En frelsi virðist ætíð koma á kostnað frelsis og spurning er hverju á að fórna til að fjölskyldan komist í forgang. Börnin eyða mestum tíma sínum í umsjá kennara eða gæsluaðila. Aftur á móti má ekki gleyma því að nálægð við aðra manneskju sækja þau yfirleitt í félagsskap við jafnaldra sína og í raun eru börnin oftast með öðrum börnum, sem er alls ekki slæmt. Hinsvegar eru börn börn og þurfa á foreldrum að halda, það er ekkert flóknara en það. Rannsóknir hafa jafnvel sýnt að helsta fyrirmynd barna eru foreldrar þeirra en ekki kennarar, þó svo kennarinnn sé sá sem kennir þeim eitt og annað þá er lexían um að vera maður falin foreldrum. Að mörgu leyti er foreldrum gert erfitt fyrir, fjölmiðlar eiga greiða leið að heimilinu og foreldrar eru ekki með börnum sínum öllum stundum. Þegar heim er komið eftir langan vinnudag setjast börnin framan við sjónvarpið eða tölvuna og una sér þar löngum stundum. Foreldrar geta ekki treyst á að það efni sem er í boði í sjónvarpinu á þeim tíma sem börnin sjá um sig sjálf sé við þeirra hæfi. Jafnvel fréttatíminn er uppfullur af efni sem hrellir börnin og svo er foreldrum kennt um ef börnin sjá það. Spurningin hver sér um börnin er flókin því umönnum barna er að vissu leyti ábyrgð samfélagsins í heild. Kristín Eva Þórhallsdóttir -kristineva@frettabladid.is



Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×