Skoðun

Innistæða fyrir hótununum?

Einar K. Guðfinnsson skrifar
Reykjavíkurflugvöllur - Einar K. Guðfinnsson alþingismaður



Menn eiga að vera heiðarlegir og segja hlutina eins og þeir raunverulega eru. Þess vegna eiga þeir sem vilja moka Reykjavíkurflugvelli burtu að segja söguna eins og hún er. Menn flytja ekki innanlandsflug frá Reykjavík og til Keflavíkurflugvallar. Verði Reykjavíkurflugvelli sópað burt eins og bráðabirgðaborgarstjórinn Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson, oddviti VG, í borginni segja, þá leggst innanlandsflug af í núverandi mynd. Það sem eftir stendur verður hvorki fugl né fiskur.

Séum við ekki lengur velkomin til Reykjavíkur með flugi, eins og nú heyrist mjög sagt, þá er ekki annað en að aðlaga sig því. Færa starfsemi sem tengist fluginu frá Reykjavík, bæta landsamgöngur, stytta leiðir og hefja jafnhliða flutning stjórnsýsluþjónustunnar í auknum mæli út í byggðirnar.

Því fyrr sem örlög Reykjavíkurflugvallar verða ráðin, því fyrr verðum við að hefjast um þetta handa. Þess vegna skiptir það okkur máli að vita hvort einhver innistæða sé fyrir hótununum. Manni er sagt að Alfreð Þorsteinsson sé hinn raunverulegi valdamaður í Reykjavíkurborg. Það er nauðsynlegt að hann svari þess vegna því hvort hann vilji ryðja flugvellinum burt.




Skoðun

Sjá meira


×