Allt ónýtt í Nóatúni

Eldur kviknaði í hluta verslunar Nóatúns í JL-húsinu við Hringbraut 121 aðfaranótt laugardags. Mikill eldur var í verslun Nóatúns í húsinu og um það leyti sem slökkvulið bar að garði sprakk gluggi á versluninni og gengu eldtungur út úr Nóatúni. Vel gekk að slökkva eldinn og tók það tiltölulega lítinn tíma. Engin slys voru á fólki enda verslunin mannlaus en gjörsamlega allt er ónýtt í verslun Nóatúns. Tilkynning barst slökkvuliði höfuðborgarsvæðisins klukkan 0.41 og var það komið á staðinn klukkan 0.47 auk aukavaktar. Reyklosa þurfti rými verslunarinnar eftir að eldurinn var slökktur sem og loftið og nokkrar hæðir og var það búið um þrjú leytið. Ekkert tjón varð á öðrum fyrirtækjum eða íbúðum í húsinu en þrífa þarf allt húsið. Enginn íbúi var beðinn um að yfirgefa heimkynni sín á meðan á slökkvustarfi stóð. Talið er að eldurinn hafi kviknað í kringum kjötborð verslunar Nóatúns. "Okkur líður ekki mjög vel og þetta er afskaplega sárt eins og er enda stutt í jólin," segir Kristinn Skúlason, markaðsstjóri Nóatúns. "Verslunin er algjörlega ónýt, það er sama hvað það er, og við búumst ekki við að opna aftur fyrr en í fyrsta lagi eftir fjórar til sex vikur. Við þurfum að hreinsa allt út og byrja upp á nýtt," segir Krisinn en þetta óhapp hefur ekki áhrif á starfsfólk verslunarinnar. "Við færum starfsfólkið á milli verslana og því þarf það ekki að hafa áhyggjur af vinnu sinni. Við gerum bara betur þegar við opnum verslunina á ný og bætum hana til muna," segir Kristinn sem reynir að horfa á björtu hliðarnar með starfsfólki sínu í skugga þessa hörmulega atburðar.