Viðskipti innlent

Umfjöllun fjölmiðla vitleysa

Stjórnarformaður KB banka segir að gagnrýnin umfjöllun danskra fjölmiðla, um innbyrðis tengsl íslenskra fjárfesta og fjármálafyrirtækja, byggi á sögusögnum og vitleysu. Umfjöllun danskra fjölmiðla um innrás íslenskra fjárfesta í danskt samfélag hefur verið gagnrýnin og hafa þeir varað við að mikil innbyrðis tengsl fjárfestanna og bankanna geti reynst hættuleg. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB banka, segir þessa umfjöllun byggjast á mikilli vanþekkingu. Engin hætta sé á því að vandræði eins fyrirtækis sem sé í viðskiptum við KB banka hafi áhrif á bankann eða önnur viðskipti hans. Þetta byggi því á sögusögnum og, í rauninni, bara vitleysu. Dönsk blöð hafa haldið því fram að flókin innbyrðis eignatengsl, líkt og tilfellið sé með íslensku fyrirtækin og bankana, hafi verið bönnuð í Danmörku í 80 ár og séu víðast hvar bönnuð. Sigurður segir að þarna rugli menn saman hugtökum. Hann segir að íslensku fjárfestarnir, sem keyptu Magasin du Nord á dögunum, hafi keypt það af dönskum banka sem hafi átt það í fjöldamörg ár. Það hafi því ekki verið „meira bannað“ en það. Sigðurður bendir ennfremur á í þessu samhengi  að AP Möller, stærsta fyrirtæki Danmerkur, sé aðaleigandi í Den danske bank. Danskir fjölmiðlar hafa kallað þessi tengsl köngulóarvef og það sama gerði Árni Magnússon félagsmálaráðherra á Iðnþingi í vor. Sigurður gefur ekki mikið fyrir heimildamenn danskra fjölmiðla; þeir séu nær allir nafnlausir. Um ummæli félagsmálaráðherra segir hann þau einfaldlega ekki eiga við um KB banka.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×