Erlent

Græddi á ótta við hjónabönd homma

Kosningar um stjórnarskrárbann við hjónaböndum samkynhneigðra sem fóru fram samhliða forsetakosningunum í Bandaríkjunum hjálpaði George W. Bush að tryggja sér endurkjör. Ástæðan er sú að fjöldi íhaldssamra kjósenda sem ella er óvíst hvort hefðu farið á kjörstað mætti til að greiða atkvæði með banninu. "Ég væri einfeldningur ef ég segði að það hefði ekki hjálpað," sagði Robert T. Bennett, formaður Repúblikanaflokksins í Ohio, í viðtali við bandaríska dagblaðið New York Times. "Það hjálpaði mest í því sem við köllum Biblíubeltinu í suðaustanverðu og suðvestanverðu Ohio, þar sem stuðningur við forsetann jókst mest. Forsetakosningarnar þetta árið réðust í Ohio. Þar hafði Bush betur með 136 þúsund atkvæða mun, hann fékk 51 prósent atkvæða en John Kerry 49 prósent. Stjórnmálafræðingurinn John Green við Akron-háskóla, sem hefur kannað áhrif trúarbragða á stjórnmál, sagði í viðtali við New York Times að mikill stuðningur við stjórnarskrárbann við hjónaböndum samkynhneigðra kunni að hafa aukið kjörsókn á íhaldssömum svæðum um þrjú til fjögur prósent og að það kunni að hafa ráðið úrslitum í ríkinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×