Erlent

Bush 24 kjörmönnum frá endurkjöri

George W. Bush er kominn með 246 kjörmenn eftir að hafa tryggt sér sigur í Colorado samvæmt spám bandarískra fjölmiðla. John Kerry er með 207 kjörmenn og þarf að bæta við sig 63 kjörmönnum meðan Bush dugar 24 í viðbót við þá sem hann virðist þegar hafa tryggt sér. Heldur hefur dregið saman með Bush og Kerry í Ohio. Allar líkur eru á því að úrslit forsetakosninganna ráðist í Ohio. Þar er staðan nú sú að Bush hefur fengið 51 prósent talinna atkvæða en Kerry 48 prósent. Mikill hluti ótalinna atkvæða er að finna í og við Cleveland og Cincinnati og gefur það til kynna að Kerry geti enn sótt að Bush og jafnvel haft betur í baráttu þeirra. Takist Kerry það þarf hann að halda öllum þeim ríkjum sem Al Gore vann fyrir fjórum árum. Það er þó engan veginn öruggt að það takist því litlu sem engu munar á Kerry og Bush í Iowa sem Gore vann fyrir fjórum árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×