Kaupir franskt matvælafyrirtæki
SÍF er að kaupa franskt matvælafyrirtæki fyrir 29 milljarða króna. Verið er að ganga frá kaupunum. Franska fyrirtækið heitir Labeyrie Group og er að sögn SÍF leiðandi í framleiðslu og dreifingu á kældum matvælum fyrir smásölu. Með þessum kaupum verður til öflug samstæða á sviði matvælaframleiðslu sem undanfarna tólf mánuði hefur velt 88,5 milljörðum króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði hefur verið fimm milljarðar króna. Starfsmenn samstæðunnar eru tæplega fjögur þúsund í ellefu löndum. Þá var samþykkt í dag að selja öll hlutabréf SÍF í SH en hluturinn nemur liðlega 22 prósentum. Einnig á að selja dótturfyrirtæki SÍF í Bandaríkjunum til Sjóvíkur fyrir 4,8 milljarða króna.