Viðskipti innlent

Reglum Kauphallarinnar breytt?

Forstjóri Kauphallar Íslands segir að samkvæmt verklagsreglum hafi verið opnað á ný fyrir viðskipti með hlutabréf Kaldbaks á fimmtudag, þrátt fyrir að endanleg niðurstaða lægi ekki fyrir um sameiningu fyrirtækisins og Burðaráss. Hann segir koma til greina að breyta verklagsreglum þannig að aldrei megi loka Kauphöllinni lengur en í tvær klukkustundir. Með sameiningi Burðaráss og Kaldbaks síðastliðinn fimmtudag varð til eitt öflugasta fjárfestingarfélag landsins sem metið er á um níutíu milljarða króna. Strax um morguninn var lokað fyrir viðskipti með hlutabréf Kaldbaks en slíkt er venjulega gert í Kauphöllinni þegar samningar eru í bígerð sem fela í sér miklar eignabreytingar. Opnað var á ný fyrir viðskipti með bréf í fyrirtækinu um klukkan hálf fjögur sama dag og seldi einn maður bréf fyrir átta milljónir eftir þann tíma, en áður en endanleg niðurstaða lá fyrir um sameiningu Burðaráss og Kaldbaks. Spurningar hafa vaknað um það hvers vegna Kauphöllin opnaði fyrir viðskiptin á ný þar sem óskað hafi verið eftir því að lokað yrði fyrir þau. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir þetta vera svipað verklag og í öðrum kauphöllum. Hann segir koma til greina að breyta verklagsreglum þannig að aldrei megi loka Kauphöllinni lengur en í tvær klukkustundir. Einnig er til í dæminu að forsvarsmenn fyrirtækja ráði því hvenær sé opið og lokað fyrir viðskipti, en það geti verið ósanngjarnt gagnvart minnihlutahópum og markaðnum í heild. Ennfremur væri hægt að ímynda sér að hafa alls ekkert lokað nema í örfáar mínútur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×