
Innlent
Óvíst að Jón Steinar verji Gunnar

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Gunnars Arnar Kristjánssonar fyrrverandi forstjóra SÍF, óskaði eftir annarri fyrirtöku í málinu gegn Gunnari fyrstu vikuna í október þegar fyrir liggur hver verði skipaður í stöðu hæstaréttardómara. En þá verður ljóst hvort Jón Steinar verji sjálfur Gunnar Örn en hann er einn umsækjenda um stöðu hæstaréttardómara. Aðalmeðferð í málinu gegn Gunnari Erni hefur verið ákveðin í nóvember. Hann er ákærður af ríkislögreglustjóra fyrir brot á almennum hegningarlögum, lögum um ársreikninga, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um endurskoðendur. Hann er sagður hafa vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi ársreikninga Tryggingasjóðs lækna á árunum 1993 til 2001. Hann hafi eftir endurskoðun á ársreikningum sjóðsins fyrir árin 1992 til 2000 áritað ársreikningana án fyrirvara og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag og breytingu á eign sjóðsins án þess að hafa aflað fullnægjandi gagna eða skoðað þau gögn sem fyrir voru með fullnægjandi hætti. Gunnar Örn var ekki viðstaddur fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.