Viðskipti innlent

Á skjön við stefnu ríkisstjórnar

Formaður þingflokks Framsóknarflokksins segir kaup Símans á hlut í Skjá einum vera á skjön við stefnu ríkisstjórnarinnar. Hann telur brýnna að Síminn styrki dreifikerfi sitt, sem hafi verið látið sitja á hakanum. Óánægja er á meðal þingmanna Framsóknarflokksins með forgangsröðun Símans. Svo virðist sem viðskipti Símans og Skjás eins hafi komið flestum á óvart. Ráðherrar Framsóknarflokksins hafa nær allir verið illfáanlegir í viðtal um málið. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra kom til landsins í nótt og ætlar að skoða málið í dag áður en hann tjáir sig. Formaður þingflokks Framsóknarmanna segir eins og flestir að fréttirnar hafi komið sér í opna skjöldu. Hann segir þetta sumpart á skjön við þá stefnu sem ríkisstjórnin hafi verið að reka, að halda uppi einu ríkisútvarpi og ekki að fara að bæta við stöðvum. Þá taldi hann að brýnna viðfangsefni Símans væri að einbeita sér að því sem talað hefði verið um of lengi án framkvæmda, en það væri að byggja upp dreifikerfi þannig að allir landsmenn hefðu jafnan aðgang að nútíma fjarskiptum. Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að hlutverk Símans væri fyrst og fremst að byggja upp dreifikerfi sitt og að það hefði ekki gengið nógu vel að undanförnu. Hann sagði líkt og fleiri Framsóknarmenn sem fréttastofa ræddi við í dag, að Framsókn hefði sett það sem eitt af skilyrðum fyrir sölu Símans að dreifikerfið yrði bætt, og að í ljósi stöðunnar sýndist honum ekki að Síminn yrði seldur á þessu ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×