Viðskipti innlent

Fengu 400 milljónir í milli

Orkuveitan seldi sjötíu prósenta hlut sinn í Línu.net á 280 milljónir til Og Vodafone. Orkuveitan keypti síðan sex prósenta hlut Og Vodafone í ljósleiðarakerfinu á milli sjö og átta hundruð milljónir króna. Og Vodafone fékk því milli fjögur og fimm hundruð milljónir króna þegar gengið var frá viðskiptunum. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar, vildi ekki staðfesta tölur úr samningunum við Og Vodafone. "Og Vodafone á eftir að senda tilkynningu um viðskiptin inn á Verðbréfaþing og verður að fá tækifæri til þess," sagði hann og taldi einkennilegt ef menn í trúnaðarstörfum væru farnir að leka samningum fyrirtækja. "Lína.net er bara einn þáttur í löngum samningi og alls ekki hægt að stilla því þannig upp að verið sé að borga með fyrirtækinu." Ársreikningur Línu.nets var kynntur í gær, en þar kom fram að tap síðasta árs nam tæpum 130 milljónum króna. "Ég geri ráð fyrir því að þeir sem legið hafa yfir tölum fyrirtækisins hafi líka skoðað sex mánaða uppgjörið þar sem fram kemur að tapið er nánast horfið og stefnir í hagnað á árinu. Þannig að ekki er verið að selja þess vegna," segir Guðmundur. Heimildir blaðsins herma að stjórnendur Orkuveitunnar meti ljósleiðarakerfið á um fjóra milljarða króna og að tekjur fyrirtækisins og aðildarfélaga af rekstri kerfisins hafi numið um fimm hundruð milljónum á síðasta ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×