Viðskipti innlent

Kaup KB banka á FIH tryggð

Eigendur 96,38% hlutafjár í KB banka tóku þátt í hlutafjárútboði bankans en því lauk á föstudag. Í boði voru 110.137.128 nýir hlutir á genginu 360 krónur (37,30 sænskar krónur). Söluverð þessara hluta nemur samtals 39.649.366.080 króna. Forgangsréttarhafar skráðu sig fyrir mun fleiri hlutum en í boði voru. Eigendur 96,38% hlutafjár í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. nýttu sér forgangsrétt sinn í útboðinu. Sá forgangsréttur sem hluthafar nýttu sér ekki flyst til þeirra hluthafa sem óskuðu eftir að kaupa viðbótarhluti, í hlutfalli við hlutafjáreign þeirra í lok 5. júlí 2004. Í tilkynningu frá KB banka segir að tilgangur hlutafjárútboðsins hafi verið að fjármagna kaup Kaupþings Búnaðarbanka hf. á danska bankanum FIH. Þá segir að í ljósi jákvæðrar niðurstöðu hlutafjárútboðsins, og sölu á víkjandi skuldabréfum í júní síðastliðnum, hafi Kaupþing Búnaðarbanki hf. tryggt fjármögnun kaupanna á FIH en stefnt sé að því að kaupunum verið lokið í september næstkomandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×