Viðskipti innlent

Burðarás eykur hlut sinn

Burðarás jók í dag hlut sinn í breska bankanum Singer and Friedlander. Kaupin vekja mikla athygli ytra í ljósi þess að búist er við að KB banki reyni yfirtöku á bankanum innan tíðar. Gengi í breska bankanum Singer and Friedlander hefur hækkað um 13% síðustu þrjá daga eða eftir að fréttist að Burðarás hefði tryggt sér tæplega þriggja og hálfs prósents hlut í honum. KB banki á fimmtungshlut í breska bankanum og hefur verið að taka sér stöðu þar eftir því sem talið er. Forsvarsmenn KB banka hafa skuldbundið sig til að reyna ekki yfirtöku fyrr en eftir þrjár vikur hið fyrsta en yfirtökuskylda skapast við 30% eignarhlut. Það vakti athygli breskra fjármálaspekinga þegar fréttist að fleiri íslenskir fjárfestar hefðu áhuga á Singer and Friedlander og líkur á yfirtöku voru taldar hafa aukist. Í dag tilkynnti Burðarás svo um frekari kaup og á félagið nú 8% prósenta hlut í Singer and Friedlander - litlum breskum banka sem KB banki hafði áður veðjað á. Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðarás, hefur ekkert viljað segja um kaupin annað en að þau samræmist yfirlýstri fjárfestingarstefnu félagsins. Hann vill til að mynda ekkert segja hvort litið sé á þetta sem fjárfestingu til skamms eða langs tíma. Burðarás á 1,3% hlut í KB banka og tæplega 3% hlut í Landsbankanum. Þeim var ekki skylt að tilkynna um kaupin í dag til Kauphallarinnar. Komi til yfirtöku má búast við að greitt verði allt að tuttugu prósenta yfirverð en óvíst er við hvaða gengi miðað verður. Myndin er af Friðrik Jóhannssyni, forstjóra Burðarás.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×