Þór Þ. vann 17 stiga sigur á Val, 87-70, í Domino's deild karla í Þorlákshöfn í kvöld.
Þórsarar voru miklu sterkari í 4. leikhluta sem þeir unnu með 23 stigum, 36-13. Til samanburðar skoraði Þór aðeins 13 stig í 3. leikhluta en Valur leiddi að honum loknum, 51-57.
Leikur Vals hrundi í 4. leikhluta þar sem það stóð ekki steinn yfir steini hjá liðinu, hvorki í vörn né sókn.
Valur byrjaði leikinn betur en í stöðunni 8-11 kom 11-0 kafli hjá Þór.
Heimamenn voru sex stigum yfir eftir 1. leikhluta, 21-15. Þór skoraði fyrstu þrjú stig 2. leikhluta og náðu níu stiga forskoti, 24-15. Þá tók Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, leikhlé sem kveikti í hans mönnum, þá sérstaklega Austin Magnus Bracey.
Austin skoraði tíu stig í 2. leikhluta og kom Val inn í leikinn. Benedikt Blöndal jafnaði í 37-37 en Marko Bakovic skoraði síðasta stig fyrri hálfleiks af vítalínunni.
Valur byrjaði setti niður tvö þriggja stiga skot í upphafi seinni hálfleiks og náði fimm stiga forskoti, 38-43.
Valsmenn voru sterkari í 3. leikhluta og náðu mest átta stiga forskoti, 47-55. Þórsarar áttu í vandræðum í sókninni og skoruðu aðeins 13 stig í 3. leikhluta. Á meðan byrjuðu Valsmenn að setja langskotin sín niður sem þeir gerðu ekki í fyrri hálfleik. Valur var sex stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 51-57.
Þar hrökk Jerome Frink, sem hafði hægt um sig í fyrstu þremur leikhlutunum, í gang og skoraði grimmt.
Aðrir leikmenn Þórs fylgdu fordæmi hans og heimamenn náðu heljartaki á leiknum. Þeir skoruðu eins og þá lysti og nánast öll skot fóru ofan í körfuna. Þórsarar hreinlega keyrðu yfir ráðalausa Valsmenn og unnu á endanum 17 stiga sigur, 87-70.
Af hverju vann Þór?
Þórsarar sýndu allar sínar bestu hliðar í 4. leikhluta þar sem þeir skoruðu næstum því jafn mörg stig og í öllum fyrri hálfleiknum.
Frink gaf tóninn og félagar hans gáfu einnig í. Á meðan voru Valsmenn ótrúlega slakir og gerðu mýgrút mistaka, bæði í vörn og sókn.
Þórsarar hittu betur, 48%-41%, og unnu frákastabaráttuna sannfærandi, 43-32.
Hverjir stóðu upp úr?
Frink var öflugur í 4. leikhluta og endaði með 26 stig. Bakovic var sterkur og skilaði 20 stigum og ellefu fráköstum. Emil Karel Einarsson, Dino Butorac og Sebastian Mignoni léku svo vel í 4. leikhluta.
Austin var sjóðheitur í 2. leikhluta og skoraði þá megnið af stigunum sínum.
Hvað gekk illa?
Allt hjá Val í 4. leikhluta. Það var ótrúlegt að sjá liðið gjörsamlega brotna og það átti engin svör.
Ragnar Nathanaelsson náði sér ekki á strik á sínum gamla heimavelli; tók fá fráköst og kláraði færin sín illa. PJ Alawoya átti heldur ekki góðan leik og var í villuvandræðum.
Hvað gerist næst?
Næsta fimmtudag mætir Valur ÍR á Hlíðarenda. Daginn eftir mætir Þór nöfnum sínum frá Akureyri fyrir norðan.
Friðrik Ingi: Menn voru óhræddir og létu vaða
„Það var mikill kraftur í okkur í 4. leikhluta og við virtumst eiga auka orku. Við vorum búnir að dreifa álaginu og við vorum með ferska fætur,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Þórs Þ., eftir sigurinn á Val.
Þórsarar höfðu mikla yfirburði í 4. leikhluta og unnu hann, 36-13.
„Vörnin var heilt yfir góð en sóknin leit ekki vel út í 3. leikhluta. Svo varð viðsnúningur og við skerptum á ákveðnum hlutum í einu leikhléi og ég er mjög ánægður með hvernig menn svöruðu fyrir sig. Þetta var góður sigur.“
Sóknarleikur Þórs var misjafn í fyrstu þremur leikhlutunum en í þeim fjórða gekk hann frábærlega.
„Ég var mjög ánægður með sóknina og menn voru í betri takti. Við vorum ákveðnari og ekki hikandi eins og vorum í 3. leikhluta,“ sagði Friðrik Ingi.
„Fyrri hálfleikurinn var stál í stál. Bæði lið spiluðu fína vörn og voru að þreifa hvort á öðru. En í 4. leikhluta voru menn óhræddir og létu vaða, keyrðu á körfuna og opnuðu fyrir samherjana.“
Ágúst: Óásættanlegt að fá á sig 36 stig í 4. leikhluta
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, var ekki upplitsdjarfur eftir tap sinna manna fyrir Þór í Þorlákshöfn í kvöld.
Valsmenn voru sex stigum yfir, 51-57, fyrir 4. leikhluta. Þar hrundi leikur þeirra og Þór vann 4. leikhlutann með 23 stigum, 36-13, og leikinn, 87-70.
„Þetta var algjört hrun á síðustu mínútunum. Við spiluðum vel í 3. leikhluta og vorum sex stigum yfir eftir hann. Eftir fimm mínútur í 4. leikhluta voru þeir búnir að jafna. Þeir hittu auðvitað úr stórum skotum og sjálfstraustið jókst. Á meðan tókum við galin skot,“ sagði Ágúst í samtali við Vísi eftir leik.
Hann vildi ekki meina að sínir menn hefðu gefist upp í 4. leikhlutanum.
„Þetta var alls ekki uppgjöf. Ég veit ekki hvernig ég á að skýra þetta. Það er eins og þetta hafi verið einbeitingarskortur. Það vantaði aðeins upp á baráttu og leikgleði í 1. leikhluta en við unnum okkur inn í leikinn,“ sagði Ágúst.
„Bensínið á tanknum var lítið hjá báðum liðum undir lokin. En liðið sem varð fyrra til að ná áhlaupi var líklegt til að komast í bílstjórasætið. Þeir gerðu það og við tækluðum það mjög illa.“
Valur fékk á sig 36 stig í 4. leikhluta. Ágúst var skiljanlega ekki sáttur með varnarleik Valsmanna síðustu tíu mínútur leiksins.
„Það var nánast jafn mikið og þeir skoruðu í fyrri hálfleik og við vorum ekkert sérstaklega sáttir við vörnina í hálfleik. En það er óásættanlegt að fá á sig 36 stig í 4. leikhluta og eitthvað sem við erum mjög ósáttir við,“ sagði Ágúst að endingu.