Mikel Arteta stýrði Arsenal í fyrsta sinn þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Bournemouth á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Dan Gosling kom Bournemouth yfir á 35. mínútu eftir sendingu frá Jack Stacey. Pierre-Emerick Aubameyang jafnaði fyrir Arsenal á 63. mínútu og þar við sat.
Arsenal, sem er án sigurs í síðustu þremur leikjum sínum, er í 11. sæti deildarinnar. Bournemouth er í því sextánda.
Southampton gerði góða ferð til Lundúna og vann 0-2 sigur á Chelsea.
Hinn 19 ára Michael Obafemi og Nathan Redmond skoruðu mörk Southampton sem hefur unnið tvo leiki í röð. Dýrlingarnir eru í 14. sæti deildarinnar.
Chelsea er í 4. sæti deildarinnar. Liðið hefur tapað tveimur heimaleikjum í röð og fjórum af síðustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.
Jordan Ayew tryggði Crystal Palace sigur á West Ham United, 2-1, með stórkostlegu marki eftir mikinn einleik.
Robert Snodgrass kom West Ham yfir á 57. mínútu en Cheikhou Kouyaté jafnaði ellefu mínútum síðar. Ayew skoraði svo sigurmark Palace á lokamínútunni.
Með sigrinum komst Palace upp í 8. sæti deildarinnar. West Ham er í 17. sæti, aðeins einu stigi frá fallsæti.
Aston Villa vann afar mikilvægan sigur á Norwich City, 1-0, í nýliðaslag á Villa Park. Conor Hourihane skoraði eina mark leiksins á 64. mínútu, átta mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.
Villa er í 18. sæti deildarinnar en Norwich er á botninum með tólf stig, átta stigum frá öruggu sæti.
Þá gerðu Sheffield United og Watford 1-1 jafntefli. Gerard Deulofeu kom Watford yfir en Oliver Norwood jafnaði fyrir Sheffield United úr vítaspyrnu.
Sheffield United er í 6. sæti deildarinnar en Watford í því nítjánda.
Jafnt í fyrsta leiknum undir stjórn Arteta | Chelsea tapaði aftur á heimavelli

Tengdar fréttir

Gylfi átti þátt í sigurmarki Everton gegn Burnley
Everton fer vel af stað undir stjórn Carlos Ancelotti.

Alli tryggði Tottenham endurkomusigur á Brighton
Tottenham komst upp í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sigri á Brighton, 2-1.