Tottenham vann glæsilegan sigur á Real Madrid, 3-1, á Wembley í H-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Með sigrinum tryggði Tottenham sér sæti í 16-liða úrslitum. Liðið er með 10 stig á toppi riðilsins, þremur stigum á undan Real Madrid.
Dele Alli kom Spurs yfir með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Kierans Trippier.
Alli bætti öðru marki við á 56. mínútu og níu mínútum síðar jók Christian Eriksen muninn í 3-0.
Cristiano Ronaldo lagaði stöðuna fyrir Real Madrid á 80. mínútu en nær komust Evrópumeistararnir ekki. Lokatölur 3-1, Tottenham í vil.
