Síðustu dagar hafa verið draumi líkastir hjá Fu. Í gær keppti hún í undanúrslitum í 100 metra baksundi þar sem hún lenti í þriðja sæti í sínum undanriðli á tímanum 58.95. Þá var hún himinlifandi yfir árangrinum og trúði varla því sem hafði gerst.
Í úrslitasundinu synti hún enn hraðar og lauk keppni á tímanum 58.76. Ungverjinn Katinka Hosszu vann á tímanum 58.45 og Kathleen Baker var önnur á 58.75. Yuanhui og Kanadakonan Kylie Masse komu í mark á sama tíma og deildu því bronsi.
Að sundi loknu var Fu tekin í viðtal og spurð út í það hvernig hún hefði farið að því að bæta sig á milli sunda og hvernig henni liði með að hafa fengið bronsverðlaun. Þá kom í ljós að hún hafði ekki hugmynd um að hún hefði fengið verðlaun.
Myndbönd af þessum tveimur viðtölum, öðru eftir undanúrslitasundið en hinu eftir úrslitasundið, má sjá hér fyrir neðan.