Ritstjóri

Hörður Ægisson

Hörður er ritstjóri viðskiptamiðilsins Innherja.

Nýjustu greinar eftir höfund

Sérís­lenskar kvaðir á banka­kerfið eru komnar „út fyrir öll velsæmis­mörk“

Það „blasir við“ að þörf er á meiri hagræðingu á fjármálamarkaði enda eru séríslenskar kvaðir, sem kosta heimili og fyrirtæki árlega yfir fimmtíu milljarða, komnar „út fyrir öll velsæmismörk“ og skaða samkeppnisstöðu íslenskra banka gagnvart erlendum keppinautum, fullyrðir forstjóri Stoða, stærsti einkafjárfestirinn í Arion og Kviku. Hann brýnir jafnframt nýja ríkisstjórn til að setja sérstök lög um nokkur lykilverkefni í virkjunarframkvæmdum til að vinna hratt upp orkuskortinn eftir langvarandi framtaksleysi í þeim efnum, að öðrum kosti muni innistæðulítil kaupamáttaraukning síðustu ára að lokum leiðréttast með gengisfalli og aukinni verðbólgu.

Fjöl­margar hindranir yrðu á vegi mögu­legs risa­sam­runa á banka­markaði

Mögulegur samruni Íslandsbanka og Arion, sem myndi búa til stærsta banka landsins og skapa mikla samlegð með aukinni stærðarhagkvæmni, yrði í senn flókinn og erfiður út frá samkeppnislegum sjónarmiðum, meðal annars þegar kæmi að stöðu sameinaðs banka á sviði innlánastarfsemi, eignastýringarmarkaðar og útlánum til fyrirtækja. Það var mat Bankasýslunnar árið 2020, sem þá hélt utan um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, að af samruna þessara banka gæti ekki orðið nema með sérstökum lögum en á það hefur verið bent að eigi að tryggja virka samkeppni á millibankamarkaði, til dæmis viðskipti með gjaldeyri, þurfi að vera að „lágmarki þrjár burðugar“ innlánstofnanir.

Stækkuðu út­boð Ocu­lis um helming vegna eftir­spurnar er­lendra sjóða

Áhugi sérhæfðra erlendra fjárfestingarsjóða á að fá úthlutað meira magni af bréfum í sinn hlut í hlutafjáraukningu Oculis þýddi að útboðið var stækkað talsvert frá því sem upphaflega var ráðgert þegar líftæknifélagið kláraði jafnvirði um fjórtán milljarða fjármögnun. Erlendir fjárfestar lögðu til rétt ríflega helminginn af þeim fjármunum sem Oculis sótti sér en andvirði þess verður meðal annars nýtt til að hraða klínískri þróun á mögulega byltingarkenndu lyfi sem fékk afar jákvæðar niðurstöður úr rannsóknum í byrjun ársins.

Greiðslur til hlut­hafa Kviku munu nema um þrjá­tíu milljörðum eftir söluna á TM

Góður gangur í rekstri TM á síðustu fjórðungum þýðir að endanlegt kaupverð Landsbankans á tryggingafélaginu verður að líkindum yfir 32 milljarðar og mun meðal annars skila sér í talsvert meiri útgreiðslum til hluthafa Kviku en áður var talið þegar viðskiptin klárast á næstu vikum. Uppgjör Kviku banka á fjórða ársfjórðungi, sem var að mestu í takt við væntingar, sýndi áframhaldandi bata á grunnrekstrinum en stjórnendur félagsins sjá tækifæri í að auka vaxtamuninn enn frekar með bættum vaxtakjörum í útgáfum á erlendum mörkuðum.

Kjálka­nes selt yfir helminginn af stöðu sinni í Festi á skömmum tíma

Fjárfestingafélagið Kjálkanes, sem er meðal annars í eigu fyrrverandi stjórnarmanns í Festi, hefur á liðlega tveimur mánuðum losað um ríflega helminginn af hlutabréfastöðu sinni í smásölurisanum samtímis þeim mikla meðbyr sem hefur verið með hlutabréfaverði fyrirtækisins. Samanlagður eignarhlutur einkafjárfesta í Festi, sem skilaði afar öflugu uppgjöri fyrr í þessum mánuði, er sem fyrr hverfandi á meðan lífeyrissjóðir eru alltumlykjandi í hluthafahópnum.

Fjór­föld um­fram­eftir­spurn í fyrstu út­gáfu Lands­bankans á AT1-bréfum

Landsbankinn hefur klárað vel heppnaða sölu á á sínum fyrstu víkjandi skuldabréfum sem teljast til eiginfjárþáttar 1, svonefnd AT1-bréf, fyrir samtals hundrað milljónir dala og var umframeftirspurn fjárfesta um fjórföld. Útgáfan er hugsuð til að styrkja eiginfjárgrunn bankans í aðdraganda kaupanna á TM þannig að þau komi ekki niður á arðgreiðslugetu hans.

Stór fjár­festir í Icelandair fær meiri tíma frá SKE til að selja öll bréfin sín

Aðaleigenda Ferðaskrifstofu Íslands og Heimsferða, sem er jafnframt einn umsvifamesti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Icelandair, hefur verið veittur lengri frestur af Samkeppniseftirlitinu til að losa um allan eignarhlut sinn í flugfélaginu en að öðrum kosti hefði hann þurft að bjóða bréfin til sölu innan fárra mánaða. Þá hafa samkeppnisyfirvöld sömuleiðis samþykkt að vegna breyttra markaðsaðstæðna þá sé tilefni til að fella úr gildi öll skilyrði sem hafa gilt undanfarin ár um takmarkanir á samstarfi milli Ferðaskrifstofu Íslands og Icelandair.

Um­svifa­mikill verk­taki bætist í hóp stærstu hlut­hafa Reita

Fjárfestingafélag í eigu eins umsvifamesta verktaka landsins hefur verið að byggja upp stöðu í Reitum og er núna á meðal allra stærstu einkafjárfestanna í hluthafahópi fasteignafélagsins. Fjárfestar hafa á undanförnum mánuðum verið að sýna fasteignafélögunum aukinn áhuga en hlutabréfaverð þeirra hefur hækkað hvað mest meðal allra félaga í Kauphöllinni á tímabilinu.

Lands­bankinn að styrkja eigin­fjár­stöðuna í að­draganda kaupanna á TM

Landsbankinn hefur fengið erlenda ráðgjafa til að undirbúa sölu á víkjandi skuldabréfi (AT1) að fjárhæð um 100 milljónir Bandaríkjadala, fyrsta slíka útgáfan af hálfu bankans, í því skyni að styrkja eiginfjárgrunninn í aðdraganda fyrirhugaðra kaupa á TM fyrir um 30 milljarða. Kaupin á tryggingafélaginu, sem eru enn í skoðun hjá Samkeppniseftirlitinu, munu án mótvægisaðgerða lækka eiginfjárhlutföll Landsbankans um 1,5 prósentur.

Fátt nýtt í skila­boðum bankans og ekki á­stæðu til að endur­meta vaxta­horfurnar

Þrátt fyrir varfærinn tón í skilaboðum Seðlabankans þá hefur ekki orðið nein breyting á meginstefnu peningastefnunefndar um lækkun vaxta í takt við verðbólgu og verðbólguvæntingar, að sögn aðalhagfræðings Kviku, en miðað við þróttinn í hagkerfinu er samt ósennilegt að lokavextir lækkunarferlisins fari nálægt þeim gildum sem voru fyrir faraldur. Launakostnaður er að hækka talsvert umfram það sem samræmis verðstöðugleika og seðlabankastjóri segir að áhættan á vinnumarkaði, þar sem enn er ósamið við kennara, sé upp á við.

Sjá meira