Enski boltinn

Beto bjargaði stigi á af­mælis­daginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Beto fagnar jöfnunarmarki sínu fyrir Everton gegn Brighton.
Beto fagnar jöfnunarmarki sínu fyrir Everton gegn Brighton. getty/Steve Bardens

Bournemouth vann sinn þriðja sigur í síðustu fjórum leikjum þegar liðið lagði Wolves að velli, 0-2, í ensku úrvalsdeildinni í dag. Á sama tíma gerðu Brighton og Everton jafntefli, 1-1.

Beto bjargaði stigi fyrir Everton þegar liðið sótti Brighton heim.

Pascal Gross kom Brighton yfir á 73. mínútu eftir góða sókn og sendingu frá Yasin Ayari. Þjóðverjinn sneri aftur til Brighton í ársbyrjun og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Mávana eftir komuna frá Borussia Dortmund í dag.

Þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Beto metin þegar hann fylgdi eftir skoti sem Bart Verbruggen, markvörður Brighton, varði. Beto á afmæli í dag en hann er 28 ára.

Everton er í 8. sæti deildarinnar með 34 stig en Brighton í því þrettánda með 31 stig.

Hinn nítján ára Eli Junior Kroupi kom Bournemouth yfir gegn Wolves á 33. mínútu. Þetta var áttunda mark franska framherjans á tímabilinu.

Alex Scott gulltryggði svo sigur Bournemouth þegar hann skoraði í uppbótartíma. Lokatölur 0-2, Bournemouth í vil en liðið er í 12. sæti deildarinnar með 33 stig. Wolves er áfram á botninum með átta stig, sautján stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×