Erlent

Tug­þúsundir mót­mæltu ICE

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fjöldi mótmælenda kom saman.
Fjöldi mótmælenda kom saman. AP

Tugir þúsunda leituðu út á götur í Minnesota-fylki í Bandaríkjunum til að mótmæla Innflytjenda- og tollaeftirliti Bandaríkjanna (ICE). Fulltrúi ICE skaut konu til bana fyrr í mánuðinum.

Skipuleggjendur mótmælanna telja að um fimmtíu þúsund hafi tekið þátt í mótmælunum þrátt fyrir nístandi kulda sem náði niður í 29 stiga frost. Eigendur fyrirtækja voru hvattir til að loka í gær og starfsfólk hvatt til að mæta ekki til vinnu eða skóla í mótmælaskyni.

„Við viljum að ICE yfirgefi Minnesota og við viljum ICE burt úr hverju einasta ríki, með sínum ofsafengna yfirgangi,“ sagði Dwayne Royster biskup við BBC.

„Við viljum að þingið láti til sín taka og hafi eftirlit með ICE.“

Fjölmennu mótmælin komu degi eftir að JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti fylkið til að styðja fulltrúa ICE. Þá ræddi hann við fulltrúa ríkisins og aðgerðasinna til að draga úr spennu samkvæmt Reuters. Vance sagði að fulltrúar ICE væru að sinna mikilvægu verkefni.

Fjöldi handtekinn

Ekki var einungis verið að mótmæla aðgerðum stjórnvalda heldur var einnig kallað eftir því að ICE-fulltrúanum sem skaut hina 37 ára Renee Good til bana í byrjun mánaðar yrði refsað. 

Fjöldi mótmælenda var handtekinn fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og fara af götunum. Fulltrúi Reuters segir að tylftir hafi verið handteknar, þar á meðal um hundrað meðlimir klerkastéttarinnar sem mótmæltu með því að biðja á Minneapolis-Saint Paul flugvellinum.

Varði almannaöryggi

Sex vikur eru liðnar síðan aðgerðir ICE hófust í fylkinu og fullyrti Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrr í vikunni að tíu þúsund glæpamenn hefðu verið handteknir. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað sagt að aðgerðirnar varði almannaöryggi og snúist um að flytja ólöglega innflytjendur úr landi. 

Þeir sem hafa gagnrýnt aðgerðirnar segja að bandarískir ríkisborgarar og innflytjendur sem hafa ekkert brotið af sér hafi einnig orðið fórnarlömb ICE.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×