Fótbolti

Segja að Real Madrid vilji fá Jürgen Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það þyrfti örugglega félaga eins og Real Madrid til að fa Jürgen Klopp aftur út í þjálfun.
Það þyrfti örugglega félaga eins og Real Madrid til að fa Jürgen Klopp aftur út í þjálfun. Getty/ Bernd von Jutrczenka

Jürgen Klopp, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool, er enn og aftur orðaður við spænska stórveldið Real Madrid. Erlendir miðlar eru þegar byrjaðir að kafa og njósna um þjálfaraleitina á Bernabeu.

Að sögn franska miðilsins Foot Mercato vill Florentino Perez forseti félagsins að hinn 58 ára gamli Þjóðverji taki við sem framtíðarþjálfari liðsins.

Xabi Alonso hætti sem aðalþjálfari Real Madrid en menn eru ekki sammála um hvort hann hafi gengið út eða hreinlega verið rekinn. Real Madrid var í það minnsta tilbúið með tímabundinn eftirmann hans um leið.

Þangað til nýr þjálfari verður ráðinn stýrir Alvaro Arbeloa liðinu, en hann var færður upp úr varaliðinu Castilla.

Samkvæmt nokkrum heimildum er Jürgen Klopp talinn líklegur til að taka við sem aðalþjálfari frá og með næsta tímabili.

Frá því að hann yfirgaf Liverpool árið 2024 hefur Jürgen Klopp starfað sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Red Bull-samsteypunni.

Fréttir hafa borist af því að honum líki vel í starfinu en einnig að hann sakni þjálfarastarfsins.

Foot Mercato greinir frá því að Real Madrid íhugi einnig hinn 45 ára gamla Ítala Enzo Maresca, sem nýlega yfirgaf Chelsea.

Það má búast við mörgum fréttum og miklu slúðri um næsta þjálfara Real Madrid þar til að hann verður formlega kynntur af hinum allsráðandi Florentino Perez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×