Fótbolti

Ísa­bella aftur heim frá sænska stór­veldinu

Sindri Sverrisson skrifar
Ísabella Sara Tryggvadóttir lék eina leiktíð með Rosengård en heldur nú á aðrar slóðir.
Ísabella Sara Tryggvadóttir lék eina leiktíð með Rosengård en heldur nú á aðrar slóðir. Rosengård

Fótboltakonan efnilega Ísabella Sara Tryggvadóttir hefur spilað sinn síðasta leik fyrir sænska stórveldið Rosengård og snýr aftur á Hlíðarenda.

Valur birti mynd af „huldukonu“ á samfélagsmiðlum sínum í kvöld og bað fólk að giska á hverja um væri að ræða en ljóst er að þar er Ísabella á ferð. Samkvæmt upplýsingum Vísis semur hún til þriggja ára við félagið.

Ísabella hélt út til Svíþjóðar í atvinnumennsku síðasta vor, eftir að hafa náð að verða bæði Íslands- og bikarmeistari á tveimur árum með Val en hún er uppalin hjá KR.

Hún lék alls 24 leiki fyrir Rosengård sem er sigursælasta félag í sögu sænska kvennafótboltans.

Eftir að hafa orðið Svíþjóðarmeistari í fjórtánda sinn (fyrst undir merkjum Malmö en síðar sem Rosengård) árið 2024 var Rosengård á allt öðrum slóðum í fyrra og náði aðeins að bjarga sér frá falli með því að vinna tvo síðustu leiki sína.

Ísabella á að baki 48 leiki fyrir yngri landslið Íslands og hefur skorað í þeim 14 mörk. Hún hefur leikið 58 leiki í efstu deild hér á landi og skorað í þeim 11 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×