Körfubolti

Fyrsta ís­lenska fé­lagið í tuttugu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dedrick Basile skoraði 27 stig í endurkomusigri Stólanna í gær. Basile og félagar eru komnir áfram í úrslitakeppni Norður-Evrópukeppni félagsliða.
Dedrick Basile skoraði 27 stig í endurkomusigri Stólanna í gær. Basile og félagar eru komnir áfram í úrslitakeppni Norður-Evrópukeppni félagsliða. Vísir/Diego

Tindastóll tryggði í gærkvöldi sér sæti í úrslitakeppninni í Norður-Evrópudeild karla í körfubolta með endurkomusigri á móti Sigal Pristhina frá Kósóvó.

Úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu en eftir þennan sigur er ljóst að Stólarnir eru aðeins þriðja liðið í keppninni til að gulltryggja sig inn í útsláttarkeppnina.

Samfélagsmiðlar ENBL-deildarinnar óskuðu íslenska félaginu til hamingju með tímamótin sem eru í höfn þegar enn eru tvær umferðir eftir.

Tindastóll hefur unnið fimm af sex leikjum sínum í keppninni og er í öðru sæti á eftir CSO Voluntari frá Rúmeníu. Rúmenska liðið hefur líka unnið fimm leiki en er með betri stigatölu og liðin hafa ekki mæst.

Eina tap Stólanna var á móti BK Opava frá Tékklandi.

Með þessum sigri í gærkvöldi urðu Stólarnir fyrsta íslenska félagið í tuttugu ár til að komast áfram í sextán liða úrslit Evrópukeppni félagsliða eða síðan Keflvíkingar voru að gera góða hluti í FIBA EuroCup Challenge, tímabilið 2005-2006.

Næsti leikur Tindastólsliðsins er við Dinamo Zagreb frá Króatíu á Króknum þann 20. janúar næstkomandi en lokaleikurinn í riðlakeppninni er síðan við belgíska félagið Brussels Basketball 10. febrúar en fer líka fram í Síkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×