Fótbolti

Minningar­stund um Åge á stað sem var honum kær: „Huggun á erfiðum tímum“

Aron Guðmundsson skrifar
Síðasta starf Åge Hareide á þjálfaraferlinum var með íslenska landsliðinu. Åge féll frá undir lok síðasta árs eftir erfið veikindi.
Síðasta starf Åge Hareide á þjálfaraferlinum var með íslenska landsliðinu. Åge féll frá undir lok síðasta árs eftir erfið veikindi. Vísir/Getty

Minningar­stund um Åge Hareide, fyrr­verandi lands­liðsþjálfara ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta verður haldin á Aker leik­vanginum, heima­velli Mold­e, á fimmtu­daginn kemur. Sama dag verður Hareide jarðsunginn frá dóm­kirkjunni í Mold­e.

Molde og fótboltafélagið þar í borg átti sérstakan stað í hjartastað Hareide og sú mátti segja það sama um hug stuðningsmanna Molde og borgarbúa í garð Hareide sem spilaði á sínum tíma með Molde og átti seina eftir að stýra liðinu sem þjálfari og gerði hann liðið að bikarmeisturum árið 1994. 

Åge Hareide lést þann 18.desember á síðasta ári, 72 ára að aldri, eftir snarpa baráttu við krabbamein í heila. Síðasta starf Hareide á þjálfaraferlinum var hjá íslenska karlalandsliðinu sem hann stýrði frá apríl 2023 til nóvember 2024 og var einum sigurleik frá því að koma liðinu á EM 2024.

Í samtali við TV 2 í Noregi segir Bendik Hareide, sonur Åge, að fjölskyldan sé djúpt snortin yfir samúðarkveðjunum sem borist hafa í kjölfar fráfalls Åge. 

„Kærleikurinn og ástin í garð pabba sem og okkar allra skiptir okkur óendanlega miklu máli og hefur verið okkur huggun á erfiðum tímum.“

Minningarstundin um Åge Hareide á Aker leikvanginum fer fram á sama degi og eftir jarðarför hans. Sýnt verður beint frá jarðarförinni í norska ríkissjónvarpinu (NRK 2) sem og TV 2.

Åge átti farsælan feril sem leik­maður sem lands­liðs- og at­vinnu­maður en sem þjálfari átti hann eftir að ná enn eftir­tektar­verðir árangri þar sem að hann vann lands­titla hjá stór­liðum í Noregi, Dan­mörku og Svíþjóð. Þá stýrði hann lands­liði Noregs og kom danska lands­liðinu í tví­gang á stór­mót. 

Eins og áður sagði var síðasta starf Åge á ferlinum sem lands­liðsþjálfari Ís­lands og þar hitti hann fyrir Jörund Áka, yfir­mann knatt­spyrnumála hjá KSÍ, sem í samtali við Vísi degi eftir fráfall Norðmannsins, sagði það sorgar­tíðindi að hann væri fallinn frá.

„Ótrú­lega leiðin­legt að hann sé nú farinn því Åge hafði hug á því að gera svo margt skemmti­legt núna þegar hann var hættur að þjálfa. Hann var búinn að bjóða okkur í heimsókn, við vorum alltaf á leiðinni til hans en svona er bara lífið. Við höldum áfram. Höldum nafni hans á lofti hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×