Sport

Treysta á óvinaliðið til að tryggja topp­sætið: „Ekki séns að ég haldi með þeim“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tristan Wirfs hefur það ekki í sér að halda með Saints.
Tristan Wirfs hefur það ekki í sér að halda með Saints. Kevin Sabitus/Getty Images

Sérstök staða sem hefur ekki sést síðan 1977 er nú uppi í lokaumferð NFL deildarinnar sem klárast í dag.

Tampa Bay Buccaneers unnu 16-14 gegn Carolina Panthers í spennuleik í gærkvöldi. Baker Mayfield leiddi liðið til sigurs eftir að hafa gert mörg mistök fyrr í leiknum en sparkarinn Chase McLaughlin átti stærstan heiðar að sigrinum því hann skoraði þrjú vallarmörk í fjórða leikhluta.

Með sigrinum komust Buccaneers upp í efsta sæti NFC suðurdeildarinnar en þeir gætu samt misst af úrslitakeppninni.

Atlanta Falcons og New Orleans Saints eru líka í NFC suðurdeildinni og mætast í kvöld.

Ef Falcons vinna leikinn verða þrjú efstu liðin jöfn en Panthers fara aftur upp í toppsætið á innbyrðis viðureignum. Ef Saints vinna leikinn halda Buccaneers toppsætinu.

Aðeins eitt lið úr deildinni fer í úrslitakeppnina og að er nú þegar ljóst að allavega eitt, kannski tvö lið, munu missa af úrslitakeppninni, þrátt fyrir að vera með jafn marga sigra og töp á tímabilinu.

ESPN lýsir þessu sem „einni sturluðustu lokaumferð sögunnar“ og segir sömu stöðu hafa komið upp árið 1977.

„Þetta er mjög furðulegt“ sagði Cade Otton, leikmaður Buccaneers sem mun halda með óvinaliði sínu, Saints, í kvöld.

„Ég hata að segja þetta en, áfram Saints! Við munum halda með þeim. Sem er mjög furðulegt.“

„Þetta er ekki í okkar höndum lengur en það er ekki séns að ég sé að fara halda með Saints, það get ég sagt þér. Ég mun bara halda á móti Falcons“ sagði liðsfélagi hans, Tristan Wirfs.

Liðin hafa háð harðar baráttur síðustu ár og fyrr á tímabilinu sagði leikstjórnandinn Baker Mayfield að liðið spilaði grófan og óíþróttamannslegan fótbolta. En eftir leikinn í gær var hann vinalegur í þeirra garð og sagðist hlakka til að horfa á leikinn í kvöld.

NFL RedZone fylgist með öllum leikjum lokaumferðarinnar og verður í beinni á Sýn Sport 3 frá klukkan 17:55.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×