Enski boltinn

McGinn út­skýrir furðu­lega fagnið: „Smá grín hjá okkur í klefanum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
John McGinn fagnaði fyrra marki sínu með skemmtilegum hætti en setti svo á sig gleraugun frægu þegar hann skoraði í annað sinn.
John McGinn fagnaði fyrra marki sínu með skemmtilegum hætti en setti svo á sig gleraugun frægu þegar hann skoraði í annað sinn. Martin Rickett/PA Images via Getty Images

John McGinn, fyrirliði Aston Villa, fagnaði fyrra marki sínu í 3-1 sigri gegn Nottingham Forest með furðulegum hætti.

Skoski miðjumaðurinn skoraði tvö mörk í sigrinum og líður greinilega vel gegn Nottingham Forest því hann hefur aðeins tvisvar skorað tvennu fyrir Aston Villa en í bæði skiptin var það gegn liðinu úr Skírisskógi.

McGinn fagnaði fyrra markinu með því að láta eins og tröllkarl, hokinn í baki og með hendurnar út steig hann þung skref, sem hann segir vera einkahúmor hjá leikmönnum liðsins.

„Þetta er smá grín hjá okkur í klefanum. Ég veit ekki hversu mikið ég má segja um þetta“ sagði McGinn í viðtali við Sky Sports léttur í bragði.

John McGinn fagnar mörkum sínum vanalega með því að setja upp gleraugu í gervi. Hann gerir það fyrir litla frænda sinn sem er sjónskertur en elskar að spila fótbolta.  EPA-EFE/TIM KEETON

„Þetta snerist um að stjórinn [Unai Emery] hefur oft talað um að taka eitt skref í einu, þannig að ég var að vísa til þess. Hann vildi líka sjá meiri ákefð, sjá mig fara meira inn á teiginn og sem betur fer gerði ég það.“

Sigurinn var mikilvægur fyrir Aston Villa eftir slæmt tap í síðustu umferð og kom fjólubláa liðinu upp í annað sæti deildarinnar.

„Þetta var hrikaleg frammistaða í síðasta leik og við vildum svara fyrir það, kannski var þetta upphafið að annarri ellefu leikja sigurgöngu. Við sjáum til.“

Klippa: McGinn fagnaði eins og skrímsli

Mark og fagn McGinn má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×