Sport

Spiluðu ís­hokkí utan­dyra í Miami

Ágúst Orri Arnarson skrifar
New York Rangers unnu ríkjandi meistara Florida Panthers í leik sem fór fram utandyra í Miami.
New York Rangers unnu ríkjandi meistara Florida Panthers í leik sem fór fram utandyra í Miami. Brian Babineau/NHLI via Getty Images

Árlegi „Winter Classic“ leikurinn í NHL íshokkídeildinni fór ekki fram á norðurhveli Bandaríkjanna eða í Kanada þetta árið heldur í Miami í sólskinsríkinu Flórída. Umhverfis- og hefðarsinnar eiga það sameiginlegt að vera alls ekki ánægðir með þetta.

Florida Panthers hafa unnið NHL deildina síðustu tvö ár og tóku á móti New York Rangers í Miami í gærkvöldi.

Rangers unnu öruggan 5-1 sigur þökk sé þrennu frá hinum sænska Mika Zibanejad, sem var líka valinn í landslið Svíþjóðar í gær fyrir Vetrarólympíuleikana í febrúar. Rússinn Igor Shesterkin átti líka stóran þátt í sigrinum en hann varði heil 36 skot.

Uppselt var á leikinn og skipuleggjendur voru mjög ánægðir með viðtökur Flórída-búa, sem hafa heillast mikið af íshokkí síðustu ár.

Leikurinn fór fram í tuttugu stiga hita en gervisnjór féll á áhorfendur og hjúpur var settur yfir völlinn svo hann héldist kaldur fram að leik, síðan tók raforkan við og kældi völlinn.

Rafmagnið sem var notað, bara á meðan leiknum stóð, hefði dugað til að knýja um tvö hundruð bandarísk heimili í heilt ár að sögn Mael Besson, umhverfisfræðings með áherslu á íþróttir.

„Þetta er algjört rugl. Þetta er bara eins og loftkældu leikvangarnir í Katar, skíðasvæðin í Sádi-Arabíu eða golfvellirnir í eyðimörkinni.“

Hefðarsinnar íþróttarinnar eru heldur ekki ánægðir með framtakið og minntu á að upphaflega hafi hugmyndin með árlegum útileik verið að heiðra sögu íshokkís og til að sýna fram á að íþróttin getur enn verið iðkuð utandyra, eins og hún var alltaf iðkuð upphaflega.

NHL deildin lætur sér lítið um finnast og er strax byrjuð að skipuleggja utandyra leik í Dallas í Texas á næsta ári en meðalhitinn þar í janúar er um átján gráður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×