Árið 2025 var viðburðaríkt og krefjandi á sviði orku- og veitumála. Óvænt áföll urðu með alvarlegri bilun í álverinu á Grundartanga, einum allra stærsta raforkunotanda landsins, stöðvun PCC á Bakka og jarðhræringum á Reykjanesi sem enn láta að sér kveða. Öflug orku- og veitufyrirtæki vinna af yfirvegun úr þessum aðstæðum til að takmarka langtímaáhrif á samfélagið og styrkja áfallaþol kerfisins í heild.
Orkuöflunarframkvæmdir fóru og af stað og aðrar kláruðust. Landsvirkjun hófst handa við byggingu fyrsta vindorkuvers landsins Vaðölduver og lokið var við stækkun jarðvarmavers í Svartsengi. Framkvæmdir sem báðar bera vott um öflugt hugvit, þor og seiglu.
Á árinu 2025 tók til starfa sameinuð Umhverfis- og orkustofnun. Öflugri stofnun er til þess fallin að styrkja vandaða stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Með hinni nýju stofnun gefst tækifæri til enn frekara samstarfs milli stjórnvalda og orku- og veitugeirans. Hin nýja stofnun fer að þessu leyti vel af stað undir forystu forstjóra stofnunarinnar.
Breytt stjórnmál?
Árið 2025 hófst með nýrri ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Þrátt fyrir að síðasta ríkisstjórn hafi meðal annars fallið vegna ágreinings um orkuöflun, virðist nú ríkja breiðari samstaða um að ráðast í orkuframkvæmdir og innviðaframkvæmdir. Þeir flokkar sem mest höfðu talað gegn aukinni orkuvinnslu hlutu ekki brautargengi í síðustu kosningum og stjórnvöld leggja nú áherslu á orkuskipti, græna uppbyggingu og einföldun regluverks. Þessar breyttu aðstæður vekja von um hraðari framgang grænna verkefna á næsta ári.
Núverandi umgjörð orkuframkvæmda hefur leitt til óboðlegs rekstrarumhverfis sem er ófyrirsjáanlegt og vinnur gegn samkeppnishæfni landsins.
Stjórnvöld hafa stigið nokkur mikilvæg skref á árinu. Mikil áhersla hefur verið á frekari þróun jarðhitanýtingar með fjárveitingum til rannsóknarborana og þróunar. Unnin var skýrsla um framtíðarmöguleika jarðhitanýtingar. Í framhaldinu stofnaður starfshópur um stefnumótun á þessu sviði, framtíð jarðhitanýtingar á Íslandi og eflingu samkeppnishæfis íslands sem jarðhitaríkis.
Þingið þarf að setja lög
Núverandi umgjörð orkuframkvæmda hefur leitt til óboðlegs rekstrarumhverfis sem er ófyrirsjáanlegt og vinnur gegn samkeppnishæfni landsins. Þetta birtist bæði í ómarkvissri og óskýrri stjórnsýslulegri meðferð verkefna á fyrstu stigum, til að mynda á vettvangi rammaáætlunar. En einnig í því að verkefni sem hafa hlotið umfangsmikla umfjöllun um árabil geta komist í uppnám vegna kæra og úrskurða á síðari stigum. Gildir þetta þó umfangsmiklar framkvæmdir séu hafnar. Þetta þarf að leysa með einföldun regluverks, skýrleika í löggjöf og áherslu á fjárfestingar í nýrri orkuvinnslu.
Umhverfis- orku og loftslagsráðherra hefur boðað breytingar í átt til einföldunar. Það er ekki nýlunda en virðist stranda, nú sem fyrr, á Alþingi. Óhjákvæmilegt er að Alþingi setji úrbætur í þessum málaflokki í forgang á árinu 2026 og nái raunverulegum árangri á því sviði. Frá því að lög eru samþykkt á Alþingi og þar til þau eru komin til framkvæmda að fullu leyti getur liðið talsverður tími. Tími sem við höfum ekki þegar horft er til orkutengdra framkvæmda. Samkeppnislönd Íslands hafa þegar stigið stór skref í breytingum á sínu reglum.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt fram frumvörp um einföldun regluverks og einföldun á rammaáætlun, en hvorugt hefur hlotið afgreiðslu á Alþingi. Þá eru þetta einungis lítil skref í stóru verkefni. Ýmis mál eru enn á undirbúningsstigi. Má þar nefna áform um breytta skattlagningu orkumannvirkja og frumvarp um lagaramma um vindorku. Í tengslum við skattlagningu orkumannvirkja hefur Samorka stutt þá meginhugmynd að nærsamfélög njóti meiri ávinnings af orkuframkvæmdum, en samtímis bent á að slíkt skuli gert með sanngjarnri skiptingu tekna fremur en auknum álögum sem draga úr fjárfestingagetu. Þegar kemur að lagramma um vindorku er mikilvægt að um vindorku gildi ekki flóknara, umfangsmeira og strangara regluverk en aðrar orkuframkvæmdir. Mikilvægt er að vandað verði til verka við útfærslu nýrra leikreglna – þannig má bæði efla traust almennings og koma brýnum framkvæmdum af stað án óæskilegrar tafar.
Tryggja þarf orkuöryggi
Orkuöryggi Íslands verður ekki tryggt án afgerandi aðgerða. Stjórnvöld bera meginábyrgð á að næg orka sé fyrir hendi, nú og til framtíðar. Færustu sérfræðingar hafa ítrekað sýnt fram á hættu á orkuskorti og árið 2025 undirstrikaði þá greiningu með sameiginlegri orkuspá Landsnets og Umhverfis- og orkustofnunar - Orkuspá Íslands. Nú þarf sameiginlegt átak stjórnvalda, sveitarfélaga og atvinnulífs til að bregðast við. Það er fagnaðarefni að fjárfestingaáform orku- og veitufyrirtækja nema hundruðum milljarða á komandi árum, en nauðsynlegt er að skapa þeim farveg.
Með skilvirkara regluverki – án þess þó að gefa afslátt af kröfum um umhverfisvernd og samráð – er fullkomlega raunhæft að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu mun hraðar. Reynslan sýnir að flókin ferli sem tefjast um of kosta þjóðarbúið að óþörfu og geta jafnvel ógnað orkuöryggi til lengri tíma.
Raunar má segja að orku- og veituinnviðir heyri til grundvallarþátta þjóðaröryggis. Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið líta orkumál sem öryggismál og vinna að því að efla varnir og innviði á því sviði.
Þá verður að taka upplýsta umræðu um hvernig fjármagna eigi þær fjárfestingar sem framundan eru í veitukerfum landsins. Eiga þær að lenda með þunga á núverandi kynslóð? Eða á að haga fjárfestingarumhverfinu þannig að greiðslur dreifist betur á núverandi og komandi kynslóðir. Báðar leiðir eru mögulegar, en þetta eru flóknar pólitískar spurningar sem taka þarf afstöðu til og varða leiðina á afgerandi hátt. Engin ákvörðun getur leitt til glataðra tækifæra, hik á framkvæmdum og fjárfestingum og til versnandi lífsskilyrði næstu kynslóða. Samkeppnishæfni landsins kann að vera ógnað ef við höldum ekki vöku okkar.
Mikilvægi orku- og veituinniviða
Áfallaþol og viðnámsþróttur orku- og veituinnviða er rauður þráður í umræðunni í ljósi breyttrar heimsmyndar og ólgandi náttúruafla. Aftakaveður og jarðhræringar minntu á að orka snýst ekki einvörðungu um hagkerfi heldur líka öryggi almennings. Raunar má segja að orku- og veituinnviðir heyri til grundvallarþátta þjóðaröryggis. Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið líta orkumál sem öryggismál og vinna að því að efla varnir og innviði á því sviði. Rússnesk árásarstríð hafa sýnt hversu skjótt má lama samfélög með því að ráðast á orkukerfi. Þessi alþjóðlegi veruleiki er nú nágrannaríkjum okkar hvatning til hlúa vel að öryggi orku- og veituinnviða og rekstraröryggi þeirra. Ísland býr að vísu að þeim forréttindum að vera óháð erlendri orku að mestu en við þurfum engu að síður að styrkja varnir gegn ytri áskorunum og byggja upp innviði með öflugum hætti. Þetta er samvinnuverkefni orku- og veitufyrirtækja og stjórnvalda. Orku-og veitufyrirtæki munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi og rekstur okkar allra mikilvægustu innviða og innan þeirra er rík öryggismenning og vitund um mikilvægi ólíkra kerfa.
Stjórnvöld og almenningur verða að skilja að nýtt regluverk og framkvæmdir munu kosta bæði peninga og tíma. Kostnaðurinn birtist á einn eða annan hátt í gjaldskrám sérleyfisfyrirtækja, fyrr eða síðar. Jarðskjálftahrinurnar á Reykjanesi hafa reynt verulega á orku- og veitukerfi landsins, en í gegnum tvö gos á árinu hafa orku- og veitufyrirtæki staðið vaktina af mikilli fagmennsku og útsjónarsemi. Jafnvel þegar náttúran sýndi klærnar tryggðu þau stöðuga afhendingu rafmagns og vatns og brugðust skjótt við truflunum. Óvissan vegna jarðelds í iðrum jarðar er enn til staðar sem undirstrikar mikilvægi öflugs viðbúnaðar og seiglu innviða. Við þessar aðstæður hafa stjórnvöld líka séð að tryggja verður betri varnir, dreifa áhættu og treysta lykilinnviði gegn svona áföllum.
Verður 2026 ár innviðaframkvæmda?
Horfur fyrir árið 2026 eru í senn krefjandi og spennandi. Í stóra samhenginu er Ísland í einstakri stöðu: Við búum þegar að 100% endurnýjanlegri raforkuframleiðslu og öflugum veitukerfum og höfum getu til að vera í fremstu röð ríkja í orkuskiptum. Orku- og veitugeirinn er skipaður öflugum fyrirtækjum, stórum sem smáum, sem búa yfir mikilli getu til að þróa frekar verkefni sín og framkvæma.
Reynslan sýnir að Ísland hefur alla burði til að uppfylla jafnvel strangar kröfur á sviði orku- og umhverfismála; oft stöndum við okkur betur en flestar aðrar þjóðir þegar upp er staðið. Við eigum því að vera óhrædd við metnaðarfull markmið, svo fremi sem leiðin að þeim sé framkvæmd í samvinnu og af skynsemi.
Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakkar samstarf og samtal á árinu 2025.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samorku.