Fótbolti

Arnar Þór ráðinn til FIFA: „Himinlifandi að hafa fengið þetta starf“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Þór var landsliðsþjálfari Íslands frá 2020 til 2023.
Arnar Þór var landsliðsþjálfari Íslands frá 2020 til 2023. Getty/Han Myung-Gu

Arnar Þór Viðarsson hefur verið ráðinn til Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA. Hann mun verður undirmaður Arsene Wengar og starfa sem frammistöðusérfræðingur (e. high performance specialist).

Svo segir í frétt belgíska miðilsins Sporza. Arnar hafði verið án starfs eftir að hafa verið sagt upp af belgíska liðinu Gent í sumar, þar sem hann var tæknistjóri (e. technical director). Arnar hafði sinnt því starfi frá sumrinu 2024.

Belgískir miðlar segja um óvænta stefnu að ræða hjá Arnari sem hafði verið orðaður við sitt fyrrum félag Lokeren.

„Ég er himinlifandi að hafa fengið þetta starf. Ég hafði verið með augun á því síðan ég var yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ en mig skorti reynslu þá. Eftir að hafa yfirgefið Gent ræddi ég möguleika á stjórnunarstöðu eða þjálfarastöðu við einhver lið en ákvað að gera það sem mig virkilega langaði til,“ segir Arnar í samtali við Sporza.

Arnar var ráðinn sem yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ í apríl 2019 og var samhliða því þjálfari U21 landsliðs Íslands. Hann tók við A-landsliðinu árið 2020 og var bæði landsliðsþjálfari og yfirmaður knattspyrnusviðs um tveggja ára skeið.

Jörundur Áki Sveinsson tók við starfi hans á skrifstofu KSÍ haustið 2022 en Arnari Þór var svo sagt upp sem landsliðsþjálfara vorið 2023. Hann hefur síðan starfað hjá Gent, fyrst sem þjálfari U23 ára liðs félagsins og svo sem tæknistjóri þar til í sumar.

Arnar verður undirmaður goðsagnarinnar Arsene Wenger, fyrrum þjálfara Arsenal, sem er yfirmaður þróunarmála hjá FIFA.

„Ég er ekki með númerið hans ennþá en hann er klárlega með mitt. Við þurfum að ræða ýmis mál og munum eflaust eiga nokkra fundi,“ segir Arnar við Sporza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×