Körfubolti

Meisturunum fatast flugið „af því hitt liðið er betra“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Shai vafðist ekki tunga um tönn, hitt liðið er einfaldlega betra.
Shai vafðist ekki tunga um tönn, hitt liðið er einfaldlega betra. Kenneth Richmond/Getty Images

Ríkjandi NBA meistarar Oklahoma City Thunder töpuðu í þriðja sinn í röð gegn San Antonio Spurs í nótt en þetta var aðeins fimmta tap liðsins á tímabilinu.

Spurs eru með gott tak á toppliðinu og unnu jóladagsleikinn með fimmtán stigum, 117-102.

Þetta var í þriðja sinn sem liðin mætast á undanförnum tveimur vikum en Spurs slógu Thunder út úr undanúrslitum NBA bikarsins þann 13. desember með tveggja stiga sigri og liðin mættust síðan aftur á Þorláksmessu þar sem Spurs unnu með tuttugu stigum.

Framan af tímabili virtust meistararnir frá Oklahoma algjörlega óstöðvandi og liðið var borið saman við bestu lið í sögu deildarinnar, Chicago Bulls (72-10) og Golden State Warriors (73-9) en sigurhlutfall þeirra hefur nú farið úr 24-1 yfir í 26-5.

Hins vegar hafa Spurs stigið upp í annað sæti vesturdeildarinnar og eru nú með 23 sigra og 7 töp.

Þetta er líka í fyrsta sinn í fjögur ár, eða síðan Thunder fóru aftur að gera sig gildandi, sem liðið tapar tveimur leikjum í röð með að minnsta kosti fimmtán stigum.

„Við þurfum að verða betri, þú tapar ekki þremur leikjum í röð á svona stuttum tíma nema af því hitt liðið er betra. Við þurfum að verða betri ef við viljum ná markmiði okkar [að verja titilinn]“ sagði verðmætasti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili, Shai Gilgeous-Alexander.

Hann skoraði 22 stig og gaf 4 stoðsendingar fyrir Oklahoma en leikstjórnandi Spurs, De‘Aron Fox, var stigahæstur með 29 stig auk 3 stoðsendinga.

Victor Wembanyama skoraði 19 stig og greip 11 fráköst en hann er enn að jafna sig af meiðslum og spilaði aðeins 26 mínútur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×