Íslenski boltinn

Býst ekki við að spila aftur fyrir lands­liðið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnór Ingvi var frábær með landsliðinu árið 2024 en hefur verið í minna hlutverki í ár.
Arnór Ingvi var frábær með landsliðinu árið 2024 en hefur verið í minna hlutverki í ár. Getty/David Balogh

Arnór Ingvi Traustason segist átta sig á því að landsliðsferli hans með Íslandi gæti verið lokið vegna skipta hans heim til KR frá Norrköping í Svíþjóð. Hann sé þó ávallt klár, komi kallið.

Arnór Ingvi tekur nýtt skref í sínu lífi með því að loka atvinnumannaferli sínum til tólf ára er hann semur við KR út árið 2028. Arnór er 32 ára gamall og var ekki í landsliðshópi Íslands í síðasta verkefni en hefur þó leikið á þessu ári, undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar.

Athygli hefur vakið að Gylfi Þór Sigurðsson hefur ekki fengið að spila fyrir landsliðið eftir skipti hans hingað heim í Bestu deildina og því vert að spyrja Arnór hvort hann sé mögulega að loka landsliðsferlinum, samhliða atvinnumannaferlinum.

„Ég geri mér alveg grein fyrir því. En ég hafði ekki verið valinn í síðustu nokkur skipti. Ég átti smá spjall við Arnar (Gunnlaugsson, landsliðsþjálfara), ekki sérstaklega fyrir þessa ákvörðun, heldur áður,“ segir Arnór Ingvi sem er með margt annað í huga en landsliðið við þá ákvörðun að koma heim og semja við KR.

„En ég er meira að hugsa um sjálfan mig akkúrat núna og sé að við eigum fullt af ungum og geggjuðum fótboltamönnum í minni stöðu sem hafa spilað síðustu tvo glugga. Ég hugsaði meira út í sjálfan mig (heldur en landsliðið) við þessa ákvörðun.“

„Ef kallið kemur er ég klár. Ég er ekki að búast við því. En ég loka aldrei dyrnum á landsliðið,“ segir Arnór Ingvi.

Hann nefnir unga leikmenn í hans stöði en þeir hafa einnig haldið áðurnefndum Gylfa Þór utan hópsins. Miðja Íslands er sérlega vel mönnuð þar sem Skagamennirnir Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson hafa hvað helst heillað.

„Það er bara geðveikt. Ég hef fengið að vera með þeim í nokkur ár í landsliðinu. Þeir eru svo góðir í fótbolta og eiga svo margt og mikið inni líka. Ég er ekki ósáttur ef þeir fá að spila fyrir Íslands hönd en ekki ég. Og þetta lið, það er eitthvað gott í vændum,“ segir Arnór Ingvi.

Viðtalið má sjá í spilaranum. Rætt er um landsliðið þegar tæplega átta mínútur eru liðnar á viðtalið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×