Veður

Á­kveðin suð­austan­átt, milt og skúrir síð­degis

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu eitt til átta stig.
Hiti á landinu verður á bilinu eitt til átta stig. Vísir/Vilhelm

Ákveðin suðaustanátt er nú á landinu og milt. Það verða skúrir sunnantil á landinu í dag, einkum síðdegis þar sem myndarlegar dembur geta gert vart við sig.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði þurrt að mestu fyrir norðan. Veik skil úr vestri komi inn á land í kvöld og gangi til austurs yfir landið með samfelldari úrkomu um tíma, rigningu eða slyddu og það kólnar.

Hiti á landinu verður á bilinu eitt til átta stig.

Á morgun kemur svo næsta bylgja með sunnan hvassviðri og rigningu og það hlýnar aftur, en norðaustantil ætti hann að hanga þurr.

Slagveðursrigningin heldur síðan áfram á aðfangadag og jafnvel bætir í vindinn, sérstaklega fyrir norðan þar sem búast má við sterkum hviðum við fjöll. Talsvert vatnsveður fylgir þessu sunnan- og vestanlands með tilheyrandi vatnavöxtum og skriðuhættu.

Útlit fyrir að dragi aðeins úr veðurhæðinni og rigningu á jóladag, en líklega verður það ekki fyrr enn á annan í jólum þar sem veðrið gæti skipt um gír og orðið eitthvað jólalegra vonandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag (Þorláksmessa): Vestan 5-13 m/s og rigning eða slydda austanlands, en lægir og léttir til með morgninum. Annars suðlægari og bjart með köflum en stöku skúrir vestanlands. Hiti um eða yfir frostmarki. Gengur í sunnan hvassviðri með rigningu vestanlands eftir hádegi. Hlýnar í veðri.

Á miðvikudag (aðfangadagur jóla): Sunnan 15-25 m/s, hvassast á Norðurlandi. Rigning sunnan- og vestanlands, og sums staðar talsverð úrkoma, en þurrt að mestu á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 7 til 13 stig.

Á fimmtudag (jóladagur): Sunnan 13-20 og súld eða rigning með köflum, en úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Áfram hlýtt, en snýst í suðvestan 8-15 með éljum vestanlands um kvöldið og kólnar.

Á föstudag (annar í jólum): Suðvestlæg átt með éljum, en bjart fyrir austan. Hiti um eða yfir frostmarki.

Á laugardag: Suðvestlæg átt og lítilsháttar væta, en bjart að mestu fyrir austan. Hlýnandi.

Á sunnudag: Vestlægari og væta af og til, en þurrt austanlands. Heldur kólnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×