Sport

Joshua kjálkabraut Paul

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jake Paul átti aldrei möguleika gegn Anthony Joshua.
Jake Paul átti aldrei möguleika gegn Anthony Joshua. getty/Ed Mulholland

Anthony Joshua sigraði Jake Paul í boxbardaga í Miami í nótt. Paul endaði á spítala með brotinn kjálka.

Gamli heimsmeistarinn í þungavigt hafði mikla yfirburði gegn samfélagsmiðlastjörnunni sem átti á brattann að sækja eins og við var búist. Paul sigraði hinn aldna Mike Tyson fyrir rúmu ári en átti ekki mikla möguleika gegn Joshua sem er bæði mun hávaxnari, þyngri og reynslumeiri.

Það tók Joshua þó sinn tíma að landa sigrinum. Hann sló Paul tvívegis niður í 5. lotu og einu sinni í þeirri sjöttu áður en hann veitti honum náðarhöggið.

„Þetta var ekki besta frammistaðan,“ sagði Joshua eftir bardagann í Kaseya Center í Miami.

„Lokamarkmiðið var að þjarma að Paul og særa hann. Það tók lengri tíma en ég bjóst við en hægri höndin fann loksins áfangastaðinn.“

Paul gekk óstuddur út úr salnum en síðan bárust fréttir af því að hann hefði farið á spítala. Hann staðfesti það svo sjálfur á samfélagsmiðlum að hann væri tvíkjálkabrotinn.

Bardaginn í nótt var fyrsti bardagi Joshuas í rúmt ár, eða síðan hann tapaði fyrir Daniel Dubois á Wembley í september 2024. Búist er við því að næsti bardagi hins enska Joshuas verði gegn Tyson Fury sem þykir líklegur til að hætta við að hætta til að mæta landa sínum.

Þrátt fyrir tapið í nótt var hljóðið gott í Paul eftir bardagann. Hann hyggst taka sér smá hlé frá hnefaleikum en stefnir svo á að verða heimsmeistari í sínum þyngdarflokki (cruiserweight).

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×