Körfubolti

KR á frá­bærum stað en getur ekki unnið titilinn

Sindri Sverrisson skrifar
Molly Kaiser tekst áreynslulítið að láta KR-liðið njóta sín í botn, að mati sérfræðinga Körfuboltakvölds.
Molly Kaiser tekst áreynslulítið að láta KR-liðið njóta sín í botn, að mati sérfræðinga Körfuboltakvölds. vísir/Hulda Margrét

Nýliðar KR eru á toppi Bónus-deildar kvenna í körfubolta, með mögulega besta bandaríska leikmanninn, en sérfræðingar Körfuboltakvölds eru þó ekki á því að liðið sé líklegt til að landa Íslandsmeistaratitlinum í vor.

Jólaþáttur Körfuboltakvölds kvenna verður á sunnudagskvöld á Sýn Sport Ísland klukkan 20.

KR-konur verða á toppnum yfir jólin, að minnsta kosti fram að toppslagnum við Njarðvík á þrettándanum. Þær eru samt bara fjórum stigum fyrir ofan Íslandsmeistara Hauka sem eru í 6. sæti, svo jöfn er deildin.

„Mér finnst þær á frábærum stað en ég held að þær verði ekki Íslandsmeistarar. Ég held að í seríu getirðu lokað svolítið á þær. En þær eru að gera ógeðslega vel. Rebekka [Rut Steingrímsdóttir] er líka búin að fá lyklana að þessu liði og það er ógeðslega gaman að sjá unga stelpu sem mætti svo bara í landsliðsgluggann og lét alla finna fyrir því,“ sagði Helena Sverrisdóttir í Körfuboltakvöldi í vikunni. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Getur KR orðið Íslandsmeistari?

Helena telur að meira þurfi til hjá KR til að landa titlinum en að það megi ekki bitna á ungum og góðum leikmönnum liðsins:

„KR er búið að vera á vegferð í mörg ár, búa til þessar stelpur og núna eru þær á stóra sviðinu. Ætlum við að fylla þetta lið af útlendingum eða hvað ætlum við að gera?“ spurði Helena.

Molly Kaiser ógeðslega góð

Hin bandaríska Molly Kaiser hefur leikið lykilhlutverk í árangri KR til þessa, með að meðaltali 25 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar, án þess þó að allt of mikið fari fyrir henni.

„Við getum fært rök fyrir því að Molly Kaiser sé besti Kaninn í deildinni,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir, stjórnandi Körfuboltakvölds.

„Hún er með frábærar tölur. Hefur skorað yfir 40 stig. Einhvern veginn hefur hún samt aldrei náð að verða leikmaður umferðarinnar hjá okkur,“ sagði Ólöf.

„Þetta er áreynslulaust hjá henni. Ég horfði vel á hana þegar hún spilaði gegn Haukum fyrir tveimur umferðum. Þegar leikurinn var „down to the wire“ þá tekur hún bara yfir. Ógeðslega góð. En allan leikinn var maður ekkert að taka eftir henni. Hún bara leyfir öllum hinum að spila,“ sagði Helena en umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×