Veður

Hiti að sjö stigum og mildast syðst

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður víða núll til sjö stig, mildast syðst.
Hiti verður víða núll til sjö stig, mildast syðst. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir norðaustlægri eða breytilegri átt í dag, fimm til þrettán metrum á sekúndu. Gert er ráð fyrir skúrum eða éljum en að það verði að mestu þurrt norðan jökla.

Á vef Veðurstofunnar segir að hiti verði víða núll til sjö stig, mildast syðst, en vægt frost í innsveitum um landið norðanvert.

„Á laugardaginn styttir upp norðan jökla um eftirmiðdaginn, en útlit er fyrir samfelldri rigningu suðaustanlands inn í aðfaranótt sunnudags.

Á vetrarsólstöðum á sunnudag verður víða bjart og rólegt veður, en þó dálitlar skúrir á Suðausturlandi.

Dagana þar á eftir er útlit fyrir úrkomusamt veður með köflum vegna lægðaskila sem verða í kringum landið, og virðist veðrið ætla að ná hámarki á aðfangadag og jóladag. Þar sem skilin ganga yfir gæti vindur náð allt að 20 m/s, fyrst vestantil. Þá mun einnig kólna lítilega og því eru einhverjar líkur á hvítum jólum um landið norðvestan- og vestanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Austan 10-18 m/s og rigning með köflum, en talsverð úrkoma suðaustantil og úrkomuminna á Norðausturlandi. Dregur hægt úr rigningu síðdegis og lægir annað kvöld. Hiti 3 til 11 stig.

Á sunnudag (vetrarsólstöður): Suðaustlæg átt 3-10 og bjart með köflum, en hvassara með Suðurströndinni. Heldur kólnandi.

Á mánudag: Austlæg eða breytileg átt 5-13 og dálítil væta suðaustantil, en víða bjart um norðan- og vestanvert landið. Þykknar upp um kvöldið með talsverðri úrkomu á Suðurlandi og Austurlandi. Vægt frost á norðanverðu landinu, en hiti allt að 5 stigum sunnan- og austanlands.

Á þriðjudag (Þorláksmessa): Breytileg átt og dálítil rigning eða slydda, en lengst af þurrt um landið norðanvert. Hlýnandi veður, hiti 2 til 7 stig seinnipartinn.

Á miðvikudag (aðfangadagur jóla): Útlit fyrir suðlæga átt, víða strekkingur eða allhvasst, með talsverðri úrkomu í flestum landshlutum, einkum sunnan jökla. Líklega rigning eða slydduél, en líkur á snjókomu um norðvestan- og vestanvert landið. Hiti 3 til 8 stig, en um frostmark norðvestantil.

Á fimmtudag (jóladagur): Suðvestan 10-18, hvassast vestantil. Bætir í vind með kvöldinu. Snjókoma um landið vestanvert, en dregur úr úrkomu um austanvert landið síðdegis. Heldur kólnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×