Umræðan

Bölvun Trumps 2.0

Susan B. Glasser skrifar

Í janúar 2018 bauð Donald Trump hópi þingmanna í Hvíta húsið til að ræða mögulegt þverpólitískt samkomulag um innflytjendamál. Þegar umræðan snerist að hugmyndum um að veita fólki frá Afríkuríkjum og öðrum löndum, svo sem El Salvador og Haítí, tímabundna þjóðlega vernd missti forsetinn þolinmæðina. „Af hverju erum við að fá allt þetta fólk frá skítalöndum (e. shithole countries) hingað?“ spurði hann og bætti við að hann vildi frekar sjá fleiri innflytjendur koma til Bandaríkjanna frá að mestu leyti hvítum Evrópuríkjum, til dæmis Noregi.

Ummælin, sem Washington Post greindi frá skömmu eftir fundinn, vöktu gríðarlega athygli. Trump neitaði frásögninni og nokkrir öldungadeildarþingmenn úr röðum Repúblikanaflokknum sem voru viðstaddir sögðust ekki muna eftir slíku orðalagi. „Þetta voru ekki orðin sem notuð voru,“ skrifaði Trump á Twitter og kallaði frásögnina „uppspuna Demókrata“. Þegar spurningar um fundinn héldu áfram að koma upp svaraði hann blaðamönnum: „Ég er ekki rasisti. Ég er sá minnsti rasisti sem þú hefur nokkurn tíma tekið viðtal við.“

Næstum átta árum síðar, rúmum klukkutíma og tuttugu mínútum inn í ræðu á kosningafundi í Pennsylvaníu í þessari viku, viðurkenndi Trump loks að hann hefði í raun notað orðalagið „skítalönd“. Hann hélt áfram og ræddi um hversu marga innflytjendur Bandaríkin taki við frá Sómalíu og öðrum stöðum sem hann lýsti sem „ógeðslegum, skítugum, viðbjóðslegum og gegnsýrðum af glæpum“. Trump viðurkenndi ekki aðeins það sem hann hafði áður neitað; hann dvaldi við ummælin, við dynjandi lófatak áheyrenda, líkt og um kærar minningar væri að ræða.

Trump 2.0 snýst um algjört rof við öll norm, reglur og hefðir sem áður áttu við um embætti forseta Bandaríkjanna og sem við verðum nú að átta okkur á að giltu jafnvel um Trump 1.0.

Fyrir marga var þetta svokallað „þarna náði ég þér“–augnablik þar sem forsetinn var loksins að gangast við einni þekktustu setningu sinni. „Sannleikurinn kemur í ljós,“ skrifaði Dick Durbin, öldungadeildarþingmaður Demókrata frá Illinois, sem hafði sætt gagnrýni Repúblikana fyrir frásögn sína af fundinum. Aðrir lögðu minni áherslu á það að forsetinn hefði loks sagt satt um eitt atriði og meiri áherslu á sífellt hatursfyllri orðræðu hans í garð sómalskra innflytjenda í Minnesota. Í raun var þetta auðvitað hvort tveggja og jafnframt skýrt dæmi um muninn á tveimur forsetatímabilum Trumps. Trump er enn Trump, en munurinn er engu að síður sláandi. Frá því að hafa verið forseti sem taldi sig þurfa að neita því að hafa sagt „skítalönd“ yfir í forseta sem, átta árum síðar, fagnar því opinberlega að hafa sagt það.

Trump 2.0 snýst um algjört rof við öll norm, reglur og hefðir sem áður áttu við um embætti forseta Bandaríkjanna og sem við verðum nú að átta okkur á að giltu jafnvel um Trump 1.0. Um árabil hefur hann haldið því fram að nánast allir forverar hans í Hvíta húsinu – hvort sem það voru George W. Bush, Barack Obama og Joe Biden – hafi haft rangt fyrir sér í einu og öllu. Ef það er eitthvað sem hefur komið á óvart á þessu öðru kjörtímabili hans er það að slík gagnrýni nær nú einnig til hans sjálfs, að minnsta kosti óbeint en að sjálfsögðu ekki persónulega. Hver sem hefur fylgst í skamma stund með beinum útsendingum af fundum ríkisstjórnarinnar veit að Trump hefur aldrei rangt fyrir sér. En þótt hann neiti alfarið að viðurkenna eigin mistök, er hann meira en fús til að hafna stefnu þeirra sem unnu fyrir hann – meira að segja þegar undirskrift hans sjálfs, dregin með einkennandi svörtum Sharpie-penna, prýðir forsíðu skjalanna.

Í janúar 2018 birti Hvíta húsið fyrstu þjóðaröryggisstefnu Trumps. Þar var varnarbandalaginu NATO lýst sem „einu mikilvægasta forskoti okkar“ og jafnframt farið fögrum orðum um bandamenn Bandaríkjanna. H. R. McMaster, þáverandi þjóðaröryggisráðgjafi og einn helsti höfundur skjalsins, lýsti þeim sem „bestu vörninni gegn ógnum samtímans“. Þekktasti kafli stefnunnar boðaði nýtt tímabil „samkeppni stórvelda“ og varaði við alvarlegum langtímaógnum frá Kína og Rússlandi. Þetta skjal var ítrekað notað af fulltrúum Repúblikanaflokksins til að sýna fram á að Trump væri í raun harður í horn að taka í samskiptum við Moskvu rétt eins og Ronald Reagan.

Ný þjóðaröryggisstefna Trumps, sem birt var fyrr í þessum mánuði, markar hins vegar afgerandi stefnubreytingu. Þar er horfið frá áherslu á stórveldaógnir frá Kína og Rússlandi og í staðinn dregið úr hlutverki Bandaríkjanna sem óumdeilds leiðtoga vestræns heims. Að því mark sem einhvers konar geópólitísk heimsmynd er dregin upp í skjalinu þá birtist hún sem Darwinísk í grunninn: Vald ræður rétti. „Yfirgnæfandi áhrif stærri, ríkari og sterkari ríkja,“ segir í stefnunni, „eru tímalaus sannindi í alþjóðasamskiptum.“ Þetta þrjátíu og þriggja blaðsíðna lofrit um forystu „friðarforsetans“ kallar jafnframt eftir því að frekari stækkun NATO verði stöðvuð, setur Rússland jafnfætis Evrópu — án þess að minnast á ábyrgð landsins á innrásarstríði sínu gegn Úkraínu — og boðar í raun pólitíska umbyltingu innan Evrópu. Í orðalagi skjalsins er talað um að „rækta mótspyrnu gegn núverandi þróun innan sumra evrópskra ríkja“. Ekki kemur á óvart að stefnan féll vel í kramið hjá ráðamönnum í Kreml. Dmitry Peskov, talsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, lýsti henni sem „að mestu leyti í samræmi við okkar sýn“.

Að því mark sem einhvers konar geópólitísk heimsmynd er dregin upp í skjalinu þá birtist hún sem Darwinísk í grunninn: Vald ræður rétti.

Hversu mikið Trump sjálfur kom að mótun þessara skjala er óljóst, en engu að síður er augljóst að útgáfan frá 2025 endurspeglar mun skýrar heimsmynd hans en stefnan frá 2017. Þá voru raunverulegar skoðanir hans enn aðeins viðraðar í lokuðu rými. Nú boðar hann þær hins vegar stoltur opinberlega og án nokkurra fyrirvara.

Kjarni málsins er sá að annað kjörtímabil Trumps er æfing í pólitískri óskhyggju. Í þetta sinn ætlar hann ekki að láta lögfræðilegar athugasemdir eða eigin fyrri gjörðir standa í vegi. Listinn yfir öfgastefnur sem hann ræddi á fyrra kjörtímabili en hefur fyrst nú framfylgt er langur. Afnám stjórnarskrárvarins réttar til ríkisfangs við fæðingu, víðtækir tollar á viðskiptaþjóðir Bandaríkjanna með vísan til „neyðarástands“ og beiting hersins í borgum sem Demókratar stjórna til að bæla niður mótmæli innanlands.

Öll þessi þrjú mál eru nú til meðferðar fyrir alríkisdómstólum, sem var einmitt helsta ástæða þess að ráðgjafar Trumps á fyrra kjörtímabili vöruðu hann við þeim. Hann breytti þó ekki stefnu sinni heldur losaði sig við ráðgjafana. Óheftur og djarfari hefur Trump nú lært, með áralanga reynslu að baki, hvernig á að fá valdakerfið í Washington til að lúta vilja hans, hvort sem það er löglegt eða ekki. Hann er loks orðinn líkt og snareðlan í Jurassic Park sem lærir að opna dyrnar, eins og embættismaður í Þjóðaröryggisráðinu frá fyrra kjörtímabili Trumps lýsti svo eftirminnilega.

Kjarni málsins er sá að annað kjörtímabil Trumps er æfing í pólitískri óskhyggju. Í þetta sinn ætlar hann ekki að láta lögfræðilegar athugasemdir eða eigin fyrri gjörðir standa í vegi.

Hluti munarins á Trump 1.0 og 2.0 felst í framsetningu. Þótt hann hafi alltaf verið dónalegur – dónaskapurinn er hluti af sýningunni – og iðulega gripið til lyga og spunabragða, virðist tungan nú enn lausari. Hann hefur alfarið hafnað hefðbundnum kröfum um „forsetalega“ framkomu og talar nú opinberlega eins og hann gerir í einrúmi. Blótar, röflar, er kynferðislega niðrandi í orðavali og rasískur. Þetta birtist ekki aðeins í árásum hans á sómalska innflytjendur eða óvenjulega löngum ræðum — níutíu og sjö mínútur, samanborið við um fjörutíu og fimm mínútur á kosningafundinum árið 2016 — heldur einnig í vandræðalegum útúrdúrum á borð við lýsingu hans á „fallegu andliti og vörum sem hætta aldrei, popp, popp, popp, eins og lítil vélbyssa“, þegar hann talaði um unga kvenkyns fjölmiðlafulltrúa sinn. Og blótsyrðin eru alls staðar. Spurningin er hvort þetta sé til marks um að hann er átta árum eldri og allar hömlur séu farnar, eða einfaldlega reiði vegna minnkandi fylgis.

Ef svo er má búast við enn meiri hörku í orðræðunni. Trump er nú, samkvæmt flestum mælikvörðum, óvinsælli en nokkru sinni fyrr. Á fyrra kjörtímabili sínu var forsetinn þegar sundrungarafl og sögulega óvinsæll, en gat þá vísað til sterks efnahag þótt hann hafi aldrei verið „sá besti í sögu heimsins“, eins og hann hélt iðulega fram. Með viðvarandi háa verðbólgu, ótta við samdrátt í hagkerfinu og áhyggjur af tollastríði hans hefur stuðningur við efnahagsstefnu Trumps fallið enn neðar en fylgi við hann sjálfan. Könnun Associated Press og NORC sem birt var nýlega sýndi þar verstu tölur ársins. Aðeins 36 prósent eru ánægð með störf Trump og 31 prósent styðja efnahagsstefnu hans, lægsta hlutfall sem mælst hefur í bæði fyrri og seinni forsetatíð hans. Í sambærilegri könnun Gallup kom fram að 60 prósent Bandaríkjamanna væru óánægð með frammistöðu hans á öðru kjörtímabili. Kjósendur virðast því líka eiga líka nokkur vel valin orð handa Trump.


Lausleg þýðing á grein sem birtist eftir bandaríska blaðamanninn Susan B. Glasser á vefsíðu The New Yorker fimmtudaginn 11. desember síðastliðinn.

Höfundur er vikulegur pistlahöfundur fyrir The New Yorker og var áður meðal annars ritstjóri Foreign Policy og kom að stofnun Politico Magazine. Hún er höfundur bókanna Kremlin Rising: Vladimir Putin’s Russia and the End of Revolution, The Man Who Ran Washington: The Life and Times of James A. Baker III og The Divider: Trump in the White House, 2017-2021.


Tengdar fréttir

Pólitísk stríðs­yfir­lýsing

Viðeigandi viðbragð við nýrri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna er ekki aðeins að gera lítið úr henni fyrir þvæluna sem hún sannarlega er. Fyrir bandamenn Bandaríkjanna í áratugi, einkum í Evrópu, er hún mun alvarlegri. Skjalið er í raun yfirlýsing um árás á evrópskt lýðræði og evrópska lífshætti.






×