Veður

Bæta við gulri við­vörun á Vest­fjörðum og mið­há­lendi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Háspennilínur norðan Skjaldbreiðar. Myndin er úr safni.
Háspennilínur norðan Skjaldbreiðar. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir Suðausturland, miðhálendi, Suðurland og Vestfirði. Fyrir voru í gildi viðvaranir fyrir Suður- og Suðausturland en Veðurstofan hefur þannig bætt við viðvörunum á Vestfjörðum og Miðhálendi. Viðvörun á Vestfjörðum tekur gildi klukkan 23 í kvöld og er í gildi til klukkan 22 annað kvöld.

Í viðvörun kemur fram að það megi búast við norðaustan 15 til 23 metrum á sekúndu, með hviðum upp í 35 metra á sekúndu. Það verður hvassast á fjallvegum og varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Viðvörun á Suðurlandi gildir til klukkan 20 í kvöld en til klukkan 14 á morgun á Suðausturlandi. Á Suðurlandi segir að hvassast verði undir Eyjufjöllum austur í Mýrdal og á Suðausturlandi verði líklega hvassast í Öræfum þar sem hviður geti orðið 35 til 40 metrar á sekúndu.

Á miðhálendi má búast við norðaustan 20 til 28 metrum á sekúndu, með hviðum upp í 45 metra á sekúndu, hvassast við fjöll. Þá er einnig spáð snjókomu og skafrenningi. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×