Enski boltinn

Kom stjórn­endum Liver­pool á ó­vart hversu harð­orður Salah var

Aron Guðmundsson skrifar
Óvissa er uppi um framtíð Mohamed Salah hja Liverpool.
Óvissa er uppi um framtíð Mohamed Salah hja Liverpool. Visir/Getty

Leik­menn Liver­pool bjuggust við því að Mohamed Salah myndi tjá sig um stöðu sína hjá félaginu eftir að hafa verið ónotaður varamaður gegn Leeds United um komandi helgi. Það kom stjórn­endum Liver­pool hins vegar  á óvart hversu harðorður Salah var um sam­band sitt við þjálfarann Arne Slot.

Salah, sem er einn af bestu leik­mönnum ensku úr­vals­deildarinnar lét gamminn geisa eftir að hafa verið ónotaður varamaður í leik gegn Leeds United um helgina sem lauk með 3-3 jafn­tefli. Salah, sem hefur verið prímu­smótor í liði Liver­pool undan­farin ár, hefur byrjað síðustu þrjá leiki Liver­pool á bekknum.

Á viðtals­svæði Elland Road, heima­vallar Leeds, eftir leikinn um helgina gaf Salah sér góðan tíma með blaðamönnum sem er nokkuð ólíkt honum. Fljótt kom í ljós að um ekkert eðli­legt við­tal var að ræða.

Salah sagði að verið væri að henda sér undir rútuna og að ein­hver hjá félaginu vildi ekki hafa hann þar. Þá lýsti hann því hvernig sam­band sitt og Arne Slot væri brostið.

Það kom helstu stjórn­endum Liver­pool ekki á óvart að Salah hefði ákveðið að ræða sina stöðu við blaða­menn eftir leikinn gegn Leeds United um nýliðna helgi. En það hversu hörðum orðum hann fór um félagið og þjálfarann Arne Slot, kom þeim mjög á óvart

The At­hletic segir ein­hverja leik­menn Liver­pool hafa strax búist við þessu frá Egyptanum því hegðun hans degi fyrir leik hafði breyst frá því sem vana­legt er eftir að Slot til­kynnti Salah að hann yrði ekki í byrjunar­liðinu gegn Leeds United.

Þrátt fyrir fjaðra­fok undan­farinna daga og slæm úr­slit bera eig­endur Liver­pool enn fullt traust til Arne Slot og er litið á stöðu Salah, sem hefur verið varamaður í undan­förnum leikjum, sem tíma­bundna en ekki á þá leið að hann hafi misst sæti sitt í byrjunar­liðinu til fram­búðar.

Salah er á leið á Af­ríkumótið með Egypta­landi eftir komandi leik Liver­pool gegn Brig­hton um næstu helgi og eru uppi vanga­veltur um framtíð hans hjá félaginu. Fari svo að Liver­pool reyni að losa sig við hann í janúar, þegar félags­skipta­glugginn opnar á nýjan leik, er vitað af áhuga liða í Sádí-Arabísku deildinni sem og MLS deildinni í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×