Sport

Þriggja ára strákur setti heims­met í skák

Sindri Sverrisson skrifar
Sarwagya Singh Kushwaha kann þegar mikið fyrir sér í skák, aðeins þriggja ára gamall.
Sarwagya Singh Kushwaha kann þegar mikið fyrir sér í skák, aðeins þriggja ára gamall. chess.com

Indverski strákurinn Sarwagya Singh Kushwaha er orðinn yngsti skákmaður sögunnar til að fá opinber FIDE-skákstig. Hann er ekki nema þriggja ára, sjö mánaða og 20 daga gamall.

Fjallað hefur verið um Kushwaha í sumum af þekktustu miðlum heims eftir að honum tókst að leggja fullorðna mótherja að velli og öðlast opinber skákstig.

Kushwaha er auðvitað enn bara í leikskóla en er sagður tefla í fimm klukkustundir á dag og greinilega strax búinn að finna íþrótt sem hentar honum afar vel.

Hann sló met annars, indversks undrabarns, Anish Sarkar, sem var þriggja ára, átta mánaða og 19 daga þegar hann náði sama áfanga í nóvember fyrir rúmu ári.

Skákmenn fá FIDE-stig alþjóða skáksambandsins þegar þeim hefur tekist að vinna andstæðing sem þegar er með FIDE-stig og er Kushwaha, sem raunar lagði þrjá andstæðinga að velli, nú með 1.572 stig. 

Stigin segja til um hve sterkur skákmaðurinn er og er Norðmaðurinn Magnus Carlsen, efsti maður heimslistans í hraðskák, með 2.824 stig.

„Það fylgir því mikið stolt og heiður fyrir okkur að sonur okkar sé orðinn yngsti skákmaður í heimi til að ná FIDE-stigum,“ sagði Siddharth Singh, faðir Kushwaha, við indversku fréttastöðina ETV Bharat. „Við viljum að hann verði stórmeistari,“ sagði faðirinn stolti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×