Fótbolti

Íslandsvinurinn rekinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bo Henriksen var rekinn frá Mainz.
Bo Henriksen var rekinn frá Mainz. Andrew Kearns - CameraSport via Getty Images

Bo Henriksen hefur verið vísað úr þjálfarastarfi Mainz í þýsku úrvalsdeildinni. Hann stýrði liðinu í tæp tvö ár.

Mainz hefur farið agalega af stað í þýsku úrvalsdeildinni og situr fast á botni deildarinnar með sex stig, þremur stigum frá öruggu sæti. Liðið hefur aðeins unnið einn leik af tólf það sem af er vetri.

4-0 tap fyrir Freiburg síðustu helgi reyndist síðasti naglinn í kistu Danans Henriksen sem hafði stýrt Mainz frá því í febrúar 2024.

Henriksen spilaði á Íslandi tvö sumur, með Val og Fram sumarið 2005, og með ÍBV sumarið 2006.

Hann eygði þá endurkomu til Íslands í fyrra en hann er einn þeirra sem sótti um landsliðsþjálfarastarf karla eftir brotthvarf Norðmannsins Age Hareide. Hann var einn þriggja aðila sem voru boðaðir í starfsviðtal af KSÍ auk Freys Alexanderssonar og Arnars Gunnlaugssonar en sá síðastnefndi hreppti hnossið.

Henriksen hóf þjálfaraferil sinn fljótlega eftir að hann yfirgaf klakann sumarið 2006. Hann tók þá við Bronhöj í heimalandinu og stýrði í átta ár. Hann var þá þjálfari Horsens frá 2014 til 2020 þar sem Kjartan Henry Finnbogason var lærisveinn hans.

Daninn gerði þá Midtjylland að dönskum bikarmeisturum árið 2022 og tók í kjölfarið við Zurich í Sviss áður en hann færði sig til Mainz í febrúar í fyrra.

Benjamin Hoffmann stýrir Mainz tímabundið meðan liðið leitar nýs þjálfara. Hann verður á hliðarlínunni þegar Mainz mætir Borussia Mönchengladbach í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×