Fótbolti

Sjáðu ís­lenska ung­linginn hamfletta Esbjerg

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Bjarki Daðason fór á kostum gegn Esbjerg í gær.
Viktor Bjarki Daðason fór á kostum gegn Esbjerg í gær. Skjáskot/Youtube/@fc_kobenhavn

Hinn 17 ára gamli Viktor Bjarki Daðason heldur áfram að gera frábæra hluti með danska stórveldinu FC Kaupmannahöfn. Hann skoraði tvö mörk og átti stoðsendingu í 4-2 sigri gegn Esbjerg í dönsku bikarkeppninni í fótbolta í gær.

Helstu atvik úr leiknum má sjá hér að neðan og var Viktor Bjarki að sjálfsögðu manna mest í sviðsljósinu. 

Viktor skoraði strax á 6. mínútu og og átti svo stoðsendingu á Elias Achouri á 35. mínútu, eftir að Mohamed Elyounoussi hafði einnig skorað.

Seinna mark Viktors kom svo á 72. mínútu, þegar hann jók muninn í 4-1, en Esbjerg náði að klóra í bakkann og á enn einhverja von um að komast í undanúrslitin, fyrir seinni leik liðanna eftir tíu daga. 

Viktor fékk ekki tækifæri til að glíma við sinn gamla liðsfélaga úr Fram, Breka Baldursson, sem sat allan tímann á varamannabekk Esbjerg.

Viktor Bjarki er nú kominn með fimm mörk og þrjár stoðsendingar í öllum keppnum, þar á meðal tvö mörk í Meistaradeild Evrópu, á sinni fyrstu leiktíð í aðalliði FCK, í aðeins ellefu leikjum. Í mörgum af þessum leikjum hefur hann aðeins spilað stutt eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

FCK mætir næst Sönderjyske um helgina í dönsku úrvalsdeildinni og svo Villarreal á Spáni í Meistaradeild Evrópu næsta miðvikudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×